Ljósspírall gegn kynbundnu ofbeldi

Fjölmennt var á Klambratún í Reykjavík í dag þar sem gjörningur fór fram gegn kynbundnu ofbeldi. Landsnefnd UN Women stóð fyrir gjörningnum í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi Sameinðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi en hann var einnig liður í átaki UN Women á Íslandi sem nefnist „Örugg borg“.

„Í krafti fjöldans munum við búa til ljósaspíral þar sem við sendum frá okkur skilaboð út í samfélagið og heim allan um að breytingar séu mögulegar,“ segir Inga Dóra Pétursdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi en um var að ræða verk eftir listakonuna Ragnheiði Hörpu Leifsdóttur sem nefnist Skínalda. Fólk var hvatt til þess að mæta með ljósgjafa eins og snjallsíma, vasaljós eða kerti til þess að skapa sameiginlega lýsingu. Verkið stóð yfir í 10 mínútur og tekin var loftmynd af því. Boðið var upp á heitt kakó að loknu verkinu og flutti söngkonan Salka Sól Eyfeld söngkona ávarp. Verkið var styrkt af Reykjavíkurborg og Símanum.

Fram kemur í tilkynningu að Reykjavík mun taka þátt í átaki UN Women er nefnist Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) og skuldbindur sig til að vinna markvisst að auknu öryggi kvenna, stúlkna og barna í opinberum rýmum borgarinnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifaði undir samstarfsyfirlýsingu þess efnis á Kjarvalsstöðum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert