Rúmum 2 milljörðum meira til heilbrigðismála

mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Sérstök framlög til rekstrar og stofnkostnaðar heilbrigðisstofnana aukast um rúmlega 2,1 milljarð króna samkvæmt breytingum sem fjármálaráðherra leggur til að gerðar verði á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem er til meðferðar á Alþingi eða samtals 2.125 milljónir króna. Tilefni breytinganna er aukið svigrúm vegna batnandi afkoma ríkissjóðs og bjartari þjóðhagsspár.

Framlag til Landspítalans hækkar um einn milljarð króna og verður samtals 49,4 milljarðar króna. 250 milljónir króna fara í ný rekstrarframlög til heilbrigðismála almennt og 100 milljónir til tækjakaupa á landsbyggðinni. Ennfremur fara 100 milljónir króna til styrkingar á rekstrargrunni heilbrigðisstofnana og heilsugæslustöðva og 50 milljónir til Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Þá er framlag vegna hönnunar meðferðarkjarna nýs Landspítala stóraukið og verður 875 milljónir króna samkvæmt breytingartillögunum.

Þátttaka einstaklinga í lyfjakostnaði minnkar ennfremur um 5% með 150 milljóna króna aukinni greiðsluþátttöku ríkisins. Lyfjakostnaður sjúklinga lækkar jafnframt með lækkun efra þreps virðisaukaskatts úr 25,5% í 24%. Neðra þrep virðisaukaskattskerfisins lækkar úr 12% í 11%. Áhrifin á vísitölu neysluverðs eru til lækkunar eða um 0,35% í stað 0,2%. Ásamt því mun kaupmáttur ráðstöfunartekna aukast um 0,65% í stað 0,5% samkvæmt tilkynningu fjármálaráðuneytisins.

„Afnám vörugjalda og lækkun efra þreps virðisaukaskattskerfisins leiðir til umtalsverðrar lækkunar á neysluútgjöldum heimilanna þrátt fyrir hækkun neðra þrepsins. Skattkerfisbreytingarnar munu tryggja að allir tekjuhópar komi fjárhagslega enn betur út. Samanlögð áhrif til hækkunar á ráðstöfunartekjum heimilanna nema rúmum 6 milljörðum króna,“ segir ennfremur.

Framlög til menntamála aukast um 767 milljónir króna. Þar af aukast framlög til háskóla um 617 milljónir króna. Framlag til Vinnustaðanámssjóðs eykst um 150 milljónir og gert varanlegt. „Til að koma til móts við tekjulægstu leigjendur á húsnæðismarkaði verður 400 m.kr. varið til viðbótar þegar ákveðnu framlagi til að bæta stöðu þeirra.“

Þá aukast framlög meðal annars til sóknaráætlana landshluta, vegaframkvæmda, íþróttamála, Landhelgisgæslunnar, VIRK, lýðheilsu og brothættra byggða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert