„Eins og foss yfir þyrluna“

Mikið afrek var unnið í Vöðlavík fyrir rúmum 20 árum síðan þegar þyrlusveitir varnarliðsins björguðu 6 skipverjum á Goðanum við afleitar aðstæður. Einn skipverji fórst í aftakaveðri þegar verið var að reyna að koma Bergvík á flot eftir strand. Brotsjór gekk yfir skipið með þeim afleiðingum að það drapst á vélinni og skipið rak stjórnlaust upp í fjöruna.

Nú er búið að gera heimildarmyndina Háski í Vöðlavík um atburðina þar sem rætt er við skipverja, björgunarsveitarmenn og aðra sem komu að björgunaraðgerðunum í Vöðlavík. Þar á meðal er þyrluflugmaðurinn sem flaug annarri af þyrlunum tveimur sem tóku þátt í aðgerðunum. 

Þar lýsir hann m.a. aðstæðunum þegar tveir menn úr þyrlusveitinni sigu niður í skipið þar sem skipverjar höfðu náð að binda sig fasta í brúarþak skipsins sér á meðan öldurnar skullu á skipinu í um 150 metra fjarlægð frá landi. Mennirnir voru svo selfluttir í land. 

mbl.is ræddi við Þórarinn Hávarðsson, framleiðanda myndarinnar, en hann var myndatöku- og fréttamaður fyrir RÚV á Austfjörðum þegar atburðirnir áttu sér stað. Hann segir aðgerðina vera mest verðlaunuðu björgunaraðgerð bandarískrar þyrlusveitar í heimi enda hafi veðrið verið þannig að ekkert tæki hefði átt að geta komist eitt eða neitt.

Í myndinni, sem kemur út á fimmtudaginn, er töluvert af myndefni sem ekki hefur verið sýnt opinberlega áður og í myndskeiðinu má sjá brot af því.

Hér má sjá frétt Morgunblaðsins af strandinu í Vöðlavík frá árinu 1993.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert