Jólin ekki hátíð allra barna

Sum börn hlakka einfaldlega ekki til jólanna.
Sum börn hlakka einfaldlega ekki til jólanna. AFP

Jólin eru ekki hátíð allra barna. Hjá sumum börnum alkóhólista fylgja jólunum vanlíðan á borð við óvissu, hræðslu og kvíða. Sala áfengis er mest í desembermánuði og flestar beiðnir um innlagnir í meðferð hjá SÁÁ eru í janúar.

Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Ásu Margrétar Sigurðardóttur, sálfræðingi hjá SÁÁ, á morgunverðarfundi samtakanna Náum áttum í morgun en erindi hennar bar yfirskriftina Er áfengisneysla foreldra viðeigandi kringum börn á jólunum?

Grípa í áfengið til að slaka á

Landsmenn virðast drekka heldur meira og oftar í desember en aðra mánuði ársins en mest selst af áfengi í þessum mánuði. Jólum og áramótum fylgja margar hefðir, líkt og jólaglögg, jólahlaðborð og skötuveisla og virðast þær gefa tilefni til neyslu áfengis.

Þá drekka Íslendingar meira og oftar með mat en áður ásamt því að aukin streita tengd jólahaldi virðist gera það að verkum að margir grípa í áfengið til að slaka á. Því eru líkur á því að áfengisins sé neytt í kringum börn. 

Ása Margrét sagði einnig að flestar beiðnir um innlagnir vegna meðferðar hjá SÁÁ berist í janúar. Ástæðurnar geta verið margar, meðal annars sektarkennd, mikil skömm, að botninum sé náð og einstaklingarnir vilji nú fá hjálp. 

Ása Margrét sagði einnig að neysla áfengis í kringum börn geti haft í för með sér ýmsa áhættuþætti. Meiri líkur eru á tilfinningalegri vanrækslu og að börn og unglingar fái að smakka áfengi eða jafnvel drekka einn eða tvo bjóra. Hátíðunum fylgdi oft kæruleysi og tók hún sem dæmi að unga fólkið fái stundum leyfi til að skála fyrir nýju ári.

„Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og venjurnar halda áfram kynslóð eftir kynslóð,“ sagði Ása Margrét og bætti við að ef jólin snúist um áfengisneyslu geti boðskapur jólanna gleymst, sem og þarfir barnanna.

Börnin hætta að hafa væntingar til jólanna

„Jólin eru ekki hátíð allra barna. Hjá sumum börnum alkóhólista fylgja jólunum vanlíðan á borð við óvissu, vonbrigði, hræðslu og kvíða. Í þessum tilvikum getur einnig verið um að ræða eldri systur og stjúpforeldra,“ sagði Ása Margrét.

Þessi börn kvíða jólunum meðal annars vegna þess að þau minnast fyrri jóla, jóla þar sem eitthvað slæmt kom fyrir og hræðast þau að það muni endurtaka sig. Þetta getur til dæmis verið rifrildi eða ofbeldi milli foreldra og systkina. Lögregla hefur þá jafnvel komið inn á heimili og fjarlægt foreldri eða systkini og óttast börnin að þetta muni koma fyrir aftur. 

„Sum börn hlakka einfaldlega ekki til jólanna. Þau hafa upplifað endurtekin svikin loforð og eru hætta að hafa væntingar til jólanna,“ sagði Ása Margrét. Þau eru ef til vill einmana, líður eins og enginn viti um ástandið heima og þau halda jafnvel að það sé eðlilegt að foreldrar drekki svo mikið og láti á þennan hátt þegar áfengi er haft um hönd. Þau eru einnig óörugg og velta fyrir sér hvað þau eigi að gera ef foreldrar þeirra drekka, sagði Ása Margrét. 

Verður mamma í meðferð um jólin?

Börn alkóhólista hafa meðal annars áhyggjur af því hvort þau fái gjöf eða gjafir á jólunum. Stundum eru litlir peningar til á heimilinu en aftur á móti virðist vera til peningur fyrir áfengi.

Þau velta einnig fyrir sér hvort mamma þeirra, pabbi eða jafnvel eldri systkini verði í meðferð yfir jól og áramót. Þau hafa líka áhyggjur af því að foreldrar þeirra muni rífast.

Börnin eru gríðarlega næm á umhverfi sitt og snillingar í að skynja hátterni, svipbrigði og raddblæ foreldra. Þau halda gjarnan að rifrildi snúist um þau og fá sektarkennd, halda að þau hafi gert eitthvað af sér, sagði Ása Margrét. 

„Ekki öll börn alkóhólista kvíða jólunum, mörg eiga gleðileg jól og spjara sig vel,“ sagði Ása Margrét að lokum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert