Sérstakur og Jón Óttar gefi skýrslu

Björn Þorvaldsson saksóknari og Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más …
Björn Þorvaldsson saksóknari og Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, tókust á í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Á myndinni sjást þeir heilsast fyrir fyrirtöku í héraði á síðasta ári. mbl.is/Golli

Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá sérstökum saksóknara, krefst þess að beiðnum lögmanna Hreiðars Más Sigurðssonar og Ólafs Ólafssonar um að átta vitni verði leidd í skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur verði synjað. Hreiðar og Ólafur voru sakfelldir í héraðsdómi í desember í fyrra í Al Thani-málinu, sem er nú til meðferðar í Hæstarétti.

Tekist var um málið í héraðsdómi í dag.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars, krefst þess að Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, tveir rannsakendur hjá embættinu, tveir starfsmenn tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og tveir fyrrverandi starfsmenn embættisins verði kvaddir til skýrslutöku í héraði. Annar fyrrverandi starfsmannanna er Jón Óttar Ólafsson sem hefur gagnrýnt embætti sérstaks saksóknara harðlega, m.a. í viðtölum og í réttarsal. Hann hefur t.d. gagnrýnt það hvernig embættið hafi staðið að símahlustun og sagt ólöglega staðið að hlustun á trúnaðarsamtöl sakborninga við verjendur.

Gerir athugasemdir við trúverðugleika vitna

Hákon Árnason, lögmaður Ólafs Ólafssonar, krefst þess að Eggert Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings, verði leiddur fyrir dóm sem vitni. Gerðar eru athugasemdir við trúverðugleika hans sem vitnis í aðalmeðferð Al Thani-málsins á síðasta ári. Þá sagði Hákon að tilgangurinn væri að varpa ljósi á það hvort hvort Eggert hefði haft einhverra hagsmuna að gæta, t.d. hvort hann hefði gert einhverskonar samkomulag við sérstakan saksóknara í tengslum við málið - mögulega sakaruppgjöf. Hákon benti á að Ólafur hefði m.a. verið sakfelldur á grundvelli þess framburðar sem Eggert veitti í réttarsal og þar af leiðandi væri mikilvægt að fá allar upplýsingar upp á borðið.

Hörður Felix sagði við málflutning vitnamálsins í dag, að tilgangurinn væri að afla sönnunargagna í tengslum við rekstur Al Thani-málsins sem er til meðferðar hjá Hæstarétti. Markmiðið væri að varpa nánara ljósi á tvo afmarkaða þætti málsins sem gætu haft þýðingu við úrlausn þess. Annars vegar varðandi framkvæmd embættis sérstaks saksóknara á símahlustunum, sem Hörður Felix telur að hafi verið andstæð lögum, m.a. vegna upplýsinga um að hlustað hafi verið á samtöl verjenda við sakborninga. Hins vegar atvik sem tengjast réttarstöðu vitnisins Halldórs Bjarkar Lúðvígssonar. Hann hafði réttarstöðu sakbornings þegar rannsókn málsins hófst snemma árs 2009 en í október sama ár var hann orðinn að vitni. Hörður sagði að Hreiðar hefði verið sakfelldur m.a. á grundvelli framburðar Halldórs fyrir dómi og taldi mikilvægt að fá það að hreint hvernig sambandi hans við embætti sérstaks saksóknara hefði verið háttað og hver hefði verið aðdragandi þess að réttarstöðunni var breytt.

Þann 12. desember á síðasta ári dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Hreiðar í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik en Ólafur hlaut þriggja ára dóm. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar og þar fer málflutningur fram dagana 26. og 27. janúar nk.

Ekkert hæft í því að samkomulag hafi verið gert

Hvað varðar beiðni Hákons, verjanda Ólafs, sagði Björn Þorvaldsson, að ekkert væri hæft í því að embætti sérstaks saksóknara hefði komist að einhverskonar samkomulagi við Eggert, enda væri slíkt lögbrot. Hann sagði tilgangslaust að boða Eggert sem vitni því allt sem verjandinn hugðist spyrja út í hefði komið fram við aðalmeðferð Al Thani-málsins á síðasta ári, og því muni það ekki upplýsa neitt. Það t.d. lægi fyrir að Eggert hefði haft réttarstöðu sakbornings í öðrum málum, á sama tíma og aðalmeðferðin fór fram í Al Thani-málinu. Þá væri undarlegt að verjandinn vildi spyrja Eggert hvaða hagsmuni hann hefði haft af því að vera ekki ákærður í sakamáli. Það hljóti að vera augljóst að það skipti alla menn máli að hvort þeir séu ákærðir í sakamáli eður ei.

„Svo eru einhverjar hugleiðingar um hvort hann hefði samið við lögreglu eða ákæruvaldið um eitthvað. Hvað er verið að gefa í skyn? Það var ekki samið um neitt. Það er eins augljóst að það getur verið, enda er það fullkomlega óheimilt og lögbrot ef það hefði verið gert,“ sagði Björn.

Hákon sagði að sakborningur ættu rétt á því að fá teknar skýrslur af vitnum. „Ef, eins og í þessu tilviki, að úrslit í sakamáli geti ráðist af því hvort vitni eins og Eggert er trúverðugt eða ekki, þá væri með því að neita skýrslutökunni, eða neita sakborningnum um það að mega reyna að sýna fram á og leiða líkur að sakleysi sínu, þá væri verið að svipta hann réttindum til að halda uppi vörnum í málum. Þetta er grunnatriði,“ sagði Hákon í andsvörum.

Vill fá það á hreint hvort hlustað hafi verið á trúnaðarsamtöl

Hörður Felix sagði við málflutninginn í dag, að það skipti miklu máli að fá það á hreint hvort starfsmenn sérstaks saksóknara hefðu hlustað á trúnaðarsamtöl sakbornings við verjanda við rannsókn málsins. „Það skiptir einfaldlega máli hvort samtöl af þessum toga voru hlustuð í reynd eða ekki. Það skiptir líka máli - það er alveg sjálfstætt atriði - að leiða það í ljóst hvort það voru einhverjir verkferlar fyrir hendi sem tryggðu þá að rannsakendur málsins gætu aldrei komist í aðstöðu til að hlusta samtöl sakborninga og verjenda,“ sagði Hörður.

Hvað varðar beiðni Harðar um að Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi starfsmaður sérstaks saksóknara, verði kvaddur fyrir dóm, sagði Hörður að ljóst að það hefðu komið fram upplýsingar sem gæfu tilefni til að leiða og hann og aðra starfsmenn embættisins fyrir dóm og spyrja þá út í framkvæmd símahlustana.

Hvað varðar Halldór Bjarkar Lúðvígsson, sem var fyrrverandi starfsmaður fyrirtækjasviðs Kaupþings, sagði Hörður að sakfelling Hreiðars í héraði hefði m.a. verið reist á framburði Halldórs. Hörður telur að mat héraðsdóms hafi verið rangt og vill spyrja starfsmenn sérstaks saksóknara út í samskipti þeirra við Halldór sem leiddi til þess að réttarstaða hans breyttist.

„Þá eins um það hvort að það hafi verið t.a.m. að frumkvæði embættisins að hann tók sig til og skilaði einhverskonar gagnrýni á framburð sóknaraðila, sem er mjög sérstakt, í tengslum við þessa breytingu á réttarstöðu,“ sagði Hörður og bætti við að hann færi fram á ríkissaksóknari myndi afhenda öll gögn, þar á meðal öll tölvupóstsamskipti, sem varða samskipti sérstaks saksóknara við Halldór. Þessa upplýsingar skipti máli varðandi mat á trúverðugleika vitnisins.

Harðorður í garð Jóns Óttars

Björn sagði að það lægi fyrir í málinu að embætti sérstaks saksóknara hefði viðurkennt að mistök hefðu verið gerð við framkvæmd símahlustana í málinu. Það hefði verið rakið í bréfaskriftum embættisins og Hreiðars. Að öðru leyti hefði verklagið verið í samræmi við lög. Björn tók fram, að framkvæmd símahlustunarinnar í þessu máli lægi fyrir. Það væri augljóst að menn hefðu byrjað að hlusta en þeim hefði svo verið gert að hætta er menn gerðu sér grein fyrir því að um samtal sakbornings við verjanda væri að ræða. Skýrsla um rannsóknina lægi enn fremur fyrir og þar af leiðandi hefði þetta enga þýðingu í málinu.

Hvað varðar vitnið Jón Óttar, Björn að hann hefði undanfarið ár komið fram með í fjölmiðlum með ýmiskonar ásakanir á hendur starfsmönnum sérstaks saksóknara og lögreglunnar. Björn vísaði til þess að eftir starfslok hjá sérstökum saksóknara hefði Jón verið kærður fyrir brot í starfi. „Hefur hann í kjölfarið lýst því að hann beri þungan hug til embættisins og starfsmanna þess sem hafa - að hans sögn - ásakað hann um brot gegn betri vitund,“ sagði Björn og vísaði m.a. til viðtals sem birtist í Fréttablaðinu í september. Það hefði m.a. komið fram, að kæran hefði sett líf hans úr skorðum og leitt til þess að hann hefði orðið gagnrýnni á verklag sérstaks saksóknara.

„Það er óhætt að segja að lýsingar hans á vinnubrögðum við símahlustanir hjá embættinu eiga ekkert skylt raunveruleikanum. Þær eru fjarri öllum sanni. Hafa fullyrðingar hans um það hvernig brotið hafi verið gegn rétti sakborninga við rannsókn hjá embættinu stigmagnast,“ sagði Björn og bætti við að það væri „ ömurlegt að horfa upp á svona ásakanir.“

Hann benti á að í fyrrahaust hefði Jón látið verjendur sakborninga í Al Thani-málinu vita hvernig hefði verið staðið að hinum meintu ólögmætu hlustunum. Björn sagði að það hefði verið fyrir aðalmeðferð málsins. Í kjölfarið hefði Jón Óttar farið að vinna fyrir Hreiðar Má og m.a. skrifað fyrir hann greinargerð, aftur á móti um annað mál.

Björn tók fram að Jón noti fortíð sína sem rannsakanda til að auglýsa bækur sínar, en Jón hefur gefið út skáldsögur sem tengjast störfum lögreglunnar.

„Það er vandséð hvernig Jón Óttar á að bera um eitthvað sem skiptir í raun máli um sönnun í málinu,“ sagði Björn.

Hvað er satt, og hvað er logið?

Varðandi Halldór Bjarkar, þá sagði Björn að það væri ekkert nýtt að réttarstöðu manna væri breytt við rannsókn mála. Þetta hefði Hreiðar gagnrýnt við aðalmeðferð málsins, þ.e. að það væri athugavert hvernig réttarstöðu hans hefði verið breytt. „Það er búið að fjalla um þetta,“ sagði Björn.

Hörður sagði í andsvörum sínum, að það væri magnað að stór hluti málflutnings Björns hefði gengið út á það að reyna rýra fyrirfram trúverðugleika Jóns sem vitnis. „Það sem skiptir máli er það að þessi einstaklingur var starfandi við embætti sérstaks saksóknara á þeim tíma sem hér skiptir máli; hann hefur komið fram með fullyrðingar um atvik innan embættisins sem sóknaraðili hlýtur að eiga fullan rétt á að leiða þá fram fyrir dóminn [...] og þá um leið að leiða aðra einstaklinga innan úr sama embættinu til þess að bera þá um þessi sömu atvik. Það er þá hægt að leiða það í ljós, væntanlega, í gegnum skýrslutöku hvað er satt og logið í þessu,“ sagði Hörður.

Það er nú í höndum dómara að úrskurða hvort vitnin verði leidd fyrir dóminn eður ei.

Hreiðar Már Sigurðsson var dæmdur í fimm og hálfs árs …
Hreiðar Már Sigurðsson var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi í héraðsdómi í desember í fyrra. Hann krefst þess að Hæstiréttur vísi málinu frá dómi. mbl.is/Ómar
Ólafur Ólafsson hlaut þriggja ára dóm. Hann krefst ómerkingar dómsins.
Ólafur Ólafsson hlaut þriggja ára dóm. Hann krefst ómerkingar dómsins. mbl.is/Ómar
Jón Óttar Ólafsson er fyrrverandi starfsmaður embættis sérstaks saksóknara. Síðastliðið …
Jón Óttar Ólafsson er fyrrverandi starfsmaður embættis sérstaks saksóknara. Síðastliðið ár hefur hann gagnrýnt embættið harðlega meðal annars í fjölmiðlum. mbl.is/Sigurgeir
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Þess er krafist að hann …
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari. Þess er krafist að hann mæti fyrir dómi til að bera um hvernig staðið var að símahlustunum embættisins. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert