„Upp með hendur, ekki skjóta“

Fólk tjáði skoðanir sínar með skýrum hætti.
Fólk tjáði skoðanir sínar með skýrum hætti. Ljósmynd/Ásdís Ólafsdóttir

„Upp með hendur, ekki skjóta,“ kyrjar mannfjöldinn í myndbandinu sem Ásdís Ólafsdóttir, nemi í stjórnmálafræði, tók á mótmælum í New York í gær.

Mótmælendurnir voru samankomnir til að lýsa yfir reiði sinni vegna ákvörðunar kviðdóms í St. Louis um að ákæra ekki lögreglumann sem skaut óvopnaðan þeldökkan pilt til bana í bænum Ferguson í ágúst. Ásdís fylgdist með mótmælunum ásamt eiginmanni sínum, Hallgrími Oddsyni blaðamanni en hjónin hafa verið búsett í Bandaríkjunum síðan í fyrra.

„Við vorum að labba heim til okkar um níu leytið og sáum þennan stóra hóp,“ segir Hallgrímur og giskar á að í hópnum hafi verið á bilinu 200 til 300 manns. Segir hann að flestir mótmælendanna hafi verið á háskólaaldri en af ýmsum ólíkum kynþáttum og uppruna.

<div> <div></div> </div>

<a href="https://instagram.com/p/v2RMLskUzJ/" target="_top">A video posted by asdis (@asdisol)</a> on Nov 11, 2014 at 7:31pm PST

Hallgrímur segir lítið hafa farið fyrir málinu í New York, utan við mikla fjölmiðlaumfjöllun og umræðu, þegar pilturinn, hinn 18 ára gamli Michael Brown, var skotinn til bana af lögreglumanninum Dar­ren Wil­son í ágúst.

„Í gær og í fyrradag var maður hinsvegar strax var við læti úti. Hópurinn sem við sáum var einn hópur af mörgum, að því er virðist, sem hafa lokað brúm og göngum,“ segir Hallgrímur.

Hann segir hópinn sem þau fylgdust með hafa farið upp Broadway og stoppað við Union Square sem er við 14. stræti. Segir hann hópinn hafa komið sér fyrir, lokað umferð og beðið eftir að lögreglan kæmi. Lögreglan var ekki lengi að láta sjá sig og mætti í tugatali að sögn Hallgríms.

„En allt er friðsamlegt. Það eru læti og hróp en svo fer hópurinn bara áfram,“ segir hann. „Maður hefur séð í fjölmiðlum að það hafi komið til átaka og að það hafi verið handtökur en það var ekki eitthvað sem við urðum vör við í gær. Það virðist ekki vera sem að slíkt liti mótmælin hér, ólíkt því sem er í Ferguson í Missouri.“

Niðurstaðan veldur gremju

Hallgrímur segir að nokkuð fari fyrir umræðu um málið í kringum þau hjónin enda séu allir að velta því fyrir sér.

 „Það eru skiptar skoðanir, þó svo að manni finnist flestir undra sig á því, alveg eins og pressan hefur gert líka, hvernig kviðdómurinn komst að þeirri niðurstöðu að málið færi ekki fyrir dómstóla,“ segir hann.

„Fjölmiðlar hafa meðal annars bent á nýjustu gögn sem til eru um mál á vegum saksóknara Bandaríkjanna en þau eru frá 2010. Það ár var ákært eftir ákvörðun kviðdóms í alls 162 þúsund málum að ellefu undanskyldum,“ bendir Hallgrímur á og segir því ljóst að slíkar hafnanir eru afar sjáldgæfar.

„Helstu rök þeirra sem vildu að þetta færi fyrir dóm eru auðvitað allt það sem bendir til að það hafi ekki allt verið klippt og skorið hvernig hlutirnir gerðust þarna,“ heldur Hallgrímur áfram og bendir á að fórnarlambið, hinn 18 ára gamli Michael Brown, hafi verið skotinn 12 sinnum og að vitnisburður lögreglumannsins sé ólíkur vitnisburði drengsins sem var með Michael Brown þegar átökin milli hans og lögreglumannsins brutust út.

„Hvað skoðanir fólks varðar er maður allavega meira var við gremjuna.“

Hallgrímur gerir ekki ráð fyrir að þau hjónin breyti venjum sínum næstu daga þó svo að komið gæti til fleiri mótmæla enda gerir hann ráð fyrir að mótmælin fari frekar að róast en hitt, auk þess sem honum finnist engin ógn stafa af mótmælunum.

„Það eru mótmæli víða um land en þakkargjörðarhátíðin er á næsta leiti og það er með stærstu ferðamannahelgum hér í Bandaríkjunum. Það er erfitt að segja nokkuð til um það, en það kæmi mér ekkert mikið á óvart að það dragi nokkuð skjótt úr kraft mótmælanna.“

Hallgrímur og Ásdís.
Hallgrímur og Ásdís. Ljósmynd/ Ásdís Ólafsdóttir
Uppréttar hendur mótmælenda tákna valdleysi einstaklinga gagnvart offorsi lögreglumanna.
Uppréttar hendur mótmælenda tákna valdleysi einstaklinga gagnvart offorsi lögreglumanna. Ljósmynd/Ásdís Ólafsdóttir
" Eina hljóðið sem heyrist í mínútu þögn kemur frá talstöð lögreglunnar" skrifar Ásdís við þessa mynd sem hún birti á Facebook. Ljósmynd/ Ásdís Ólafsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert