Yrði þyngra og lengra verkfall

Læknar og annað starfsfólk bráðamóttöku LSH.
Læknar og annað starfsfólk bráðamóttöku LSH. mbl.is/Golli

Læknafélag Íslands (LÍ) fundaði í gær, eftir sáttafund með samninganefnd ríkisins hjá ríkissáttasemjara. Á fundinum kynntu stjórnendur félagsins fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir eftir áramót, sem lagðar eru til að greidd verði atkvæði um í næstu viku.

„Þessi lota er að verða búin svo það þarf að ákveða hvað á að gera næst ef ekki semst. Það liggur beinast við að boða verkfall,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður LÍ, í samtali við mbl.is.

Hann segir fyrirhugaðar aðgerðir eftir áramót mun harðari en þær sem hafa staðið yfir síðustu fjórar vikurnar. Þannig yrði fyrirkomulagið áfram á þann veg að læknum yrði skipti í fjóra hópa þar sem einn hópur er í verkfalli í einu. Þessir hópar myndu svo leggja niður störf í fjóra daga í viku í stað tveggja eins og hefur verið í yfirstandandi verkfallsaðgerðum. Þetta yrði gert án svokallaðra hlévikna, svo enginn tími gæfist á milli verkfallsaðgerða til að vinna upp þau verkefni sem upp myndu safnast.

Þorbjörn segir þessar fyrirhuguðu aðgerðir koma til með að standa í þrjá mánuði, ef ekki semst fyrir áramót. „Þetta yrði þyngra og lengra verkfall.“

Hann segist þó vonast til þess að ekki muni koma til þeirra. „Við vonum auðvitað að þetta fari að leysast og ég er búinn að halda það lengi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert