Mikil ánægja með Borgarbókasafnið

Í Borgarbókasafninu.
Í Borgarbókasafninu. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Mikil ánægja er með starfsemi Borgarbókasafns, ef marka má gestakönnun sem gerð var á bókasafninu. Niðurstöður hennar sýna að 94% svarenda eru mjög eða frekar ánægð með starfsemina og 96% ánægð með þjónustu þess.

Könnunin var í lok september og voru þátttakendur 473. Konur voru í meirihluta þeirra sem tóku þátt eða 64% þátttakenda.

Á meðal þess sem kom fram er að 37% gesta koma á safnið tvisvar til þrisvar í mánuði og 24% einu sinni í mánuði og dvelja flestir um 30-60 mínútur á safninu í hverri heimsókn. Flestir, eða 85%, komu á safnið til að ná í eða skila safnefni og kom næstfjölmennasti hópurinn, eða 26%, til að glugga í blöð eða tímarit.

Einnig var spurt um hvaða hlutverki eða hlutverkum væri mikilvægast að Borgarbókasafn sinnti og var hægt að merkja við fleiri en eitt atriði. Rúmlega 90% þátttakenda fannst mikilvægt að safnið biði upp á fjölbreyttan safnkost, 56% fannst mikilvægt að safnið stuðlaði að læsi og lestri meðal barna og sama fjölda fannst mikilvægt að safnið biði upp á aðstöðu til lærdóms og til að glugga í bækur og tímarit. 37% fannst mikilvægt að boðið væri upp á viðburði og dagskrá fyrir alla aldurshópa og 34% finnst mikilvægt að boðið væri upp á aðgang að tölvum og interneti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert