Þrjár kynslóðir halda jólabasar

Frá jólabasar KFUK í fyrra.
Frá jólabasar KFUK í fyrra. Ljósmynd/KFUK

Félagskonur KFUM og KFUK á Íslandi standa fyrir Basar KFUK á morgun á milli klukkan 14 og 17 í félagshúsi KFUM og KFUK á Holtavegi 28. Þessi jólabasar á sér rúmlega 100 ára sögu og er eflaust elsti basar landsins.

Að venju er boðið upp á glæsilegar handunnar vörur og ljúffengt heimabakað góðgæti. Á hverju ári eru nokkrir kvennahópar á öllum aldri sem koma saman og sauma, hekla, prjóna og föndra vandaðar vörur fyrir þennan klassíska og sívinsæla basar.

Kristín Sverrisdóttir er ein þeirra kvenna sem stendur fyrir jólabasarnum og segir hún hann fastan lið í tilverunni. „Þetta er nokkurs konar vertíð og svo er basardagurinn svolítill uppskerudagur,“ segir hún. Kristín hefur tekið virkan þátt í fjölda ára, og segir hún margar kvennanna taka þátt eins lengi og þær geta.

„Fyrir sumar konurnar er þetta undirbúningsvinna allt árið. Margar konur eru virkar í mörg ár og jafnvel eins lengi og þær geta. Það er alveg dásamlegt.“

Jólagjafir og jólaskreytingar eru meðal þess sem er á boðstólnum á jólabasar KFUK, en Kristín segir heimabökuðu kökurnar þó alltaf vinsælastar. „Heimagerðar kökur eru heimagerðar kökur. Það er bara þannig,“ segir hún og hlær.

Þá segir hún handverkið einnig vinsælt. „Við reynum alltaf að finna út hvað er vinsælt hvert ár fyrir sig og miða við það. Við höfum selt mikið af fallegri handavinnu í gegnum árin.“ Þá bætir hún við að þær sem eldri eru og flinkari í höndunum hafi í gegnum tíðina deilt þekkingu sinni með þeim yngri. 

„Það sem er svo gaman er að þarna mætast kynslóðirnar. Það er svo óskaplega dýrmætt fyrir félagsskapinn. Það eru alveg þrjár kynslóðir sem koma að þessum basar og það er dásamlegt.“

Basarinn er og hefur alltaf verið mikilvæg fjáröflunarleið fyrir félagið. Öll vinna og allur efniskostnaður er gefin af félagsfólki og rennur allur ágóði basarsins í æskulýðsstarfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert