„Ég bara hreinlega endurfæðist“

Wali Safi hefur starfað sem skólaliði í Salaskóla.
Wali Safi hefur starfað sem skólaliði í Salaskóla. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er mjög glaður yfir þessu,“ segir Wali Safi en hann er einn þeirra sem Alþingi veitti ríkisborgararétt áður en þingið fór í jólaleyfi. Wali kom fyrst til landsins í júní 2008 frá Afganistan og sótti um pólitískt hæli hér. Var honum að lokum veitt landvistarleyfi af mannúðarástæðum tveimur árum síðar. Hann hefur starfað undanfarin ár sem skólaliði í Salaskóla í Kópavogi.

„Ég bara hreinlega endurfæðist,“ segir Wali og hlær. Hann hafi frétt þetta í dag og héðan í frá verði 17. desember hátíðisdagur hjá honum. „Ég mun örugglega halda upp á þetta á hverju ári.“ Það skipti hann miklu máli að fá ríkisborgararéttinn eins og hvern annan í hans stöðu. Hann hafi núna til að mynda miklu meira ferðafrelsi en áður. „Það eykur möguleikana á að gera eitthvað í lífinu. Maður getur farið þangað sem maður vill og til dæmis lært eitthvað í öðru landi ef maður vill það.“

Wali nefnir sem dæmi að hann hafi ekki hitt bróður sinn sem sé í Úkraínu síðan árið 1992. „Til þess að geta farið þangað þarf sérstakt leyfi en með ríkisfang get ég einfaldlega farið þangað án þess að hafa slíkt leyfi.“ Með íslenskan ríkisborgararétt geti hann farið allra sinna ferða.

Frétt mbl.is: 34 fái íslenskan ríkisborgararétt

Frétt mbl.is: Nagandi óvissa vond fyrir sálina

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert