Matsalurinn ekki opinn á jólunum

Íbúar Eirar í Fróðengi í Reykjavík eru óánægðir. Auður Jónsdóttir …
Íbúar Eirar í Fróðengi í Reykjavík eru óánægðir. Auður Jónsdóttir er hér til hægri. mbl.is/BMÓ

Íbúarnir í öryggisíbúðum Eirar í Fróðengi í Reykjavík eru ekki ánægðir með þjónustu borgarinnar, en félagsmiðstöðin þar sem íbúum er boðið að borða saman á hverjum degi, verður lokuð á hátíðisdögum yfir jólin. 

Borgin sér um rekstur félagsmiðstöðvarinnar þar sem boðið er upp á mat í hverju hádegi. Upprunalega var ekki boðið upp á slíkan mat um helgar, en eftir undirskriftarsöfnun íbúanna,  þar sem því var mótmælt, náðist samkomulag um að einnig yrði opið um helgar. Segjast íbúarnir hafa gert ráð fyrir því að í því hafi falist að opið yrði á helgidögum. Nú í vikunni bárust hins vegar þau skilaboð frá borginni að matsalan yrði lokuð á hátíðisdögum en hægt væri að fá heimsendan mat. Er maturinn þá eldaður í eldhúsi borgarinnar á Vitatorgi í Reykjavík, og svo ekinn heim til íbúa. 

Íbúarnir segja það skipta miklu fyrir íbúa, að geta snætt saman á hátíðisdögum, líkt og öðrum dögum. „Sumir eru með fjölskyldu sem býður þeim heim, en alls ekki allir. Sumir eru einir og aðrir með ættingja úti á landi eða í útlöndum. Þá er ekki boðlegt að þeir verði að borða jólamatinn sinn, einir síns liðs,“ segir Ásta Jónsdóttir, íbúi í Fróðengi og bætir við: „Okkur finnst þetta lúaleg framkoma.“

Íbúar segja marga hafa félagskapinn í hádegismatnum sem fastan punkt á degi hverjum, og að það sé því óskiljanlegt að ekki sé unnt að viðhalda því á hátíðisdögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert