„Verður vonandi aflétt að lokum“

Erpur Eyvindarson
Erpur Eyvindarson mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég held að viðskiptabanninu verði ekki aflétt en það verða samt örugglega einhverjar tilslakanir. Ég vona samt að þetta leiði af sér einhverja keðjuverkun sem endi með því að banninu verði aflétt, því þetta bann er algjör þvæla og hræsni,“ segir tónlistamaðurinn Erpur Eyvindarson, sem er mikill áhugamaður um Kúbu, og segist hann ferðast þangað í hvert sinn er tækifæri gefst. 

Í gær bárust fréttir af því að stjórnvöld í Bandaríkjunum og á Kúbu hefðu náð samkomulagi um að efla tengsl landanna tveggja. Ákvörðuninni var tekið fagnandi af Sameinuðu þjóðunum. 

Að sögn Erps á þetta samkomulag sér langan aðdraganda, og felur í sér fangaskipti á milli þessara tveggja þjóða. 

„Þetta snýst meðal annars um kúbversku fimmmenninganna. Þeir hafa setið í fangelsi í Bandaríkjunum fyrir að hafa njósnað um grunaða hryðjuverkamenn í kúbanska útlagasamfélaginu sem voru að skipuleggja árásir og höfðu meðal annars komið fyrir sprengjum á hóteli í Havana. Fimmmenningarnir fóru á vegum Kúbverja fóru til þess að njósna og þefa þetta uppi og skiluðu niðurstöðunum til FBI. Þar voru þeir hins vegar handteknir fyrir njósnir og hafa setið í fangelsi síðan. Þetta er búin að vera löng krísa og deila í hátt í 20 ár.“

„Á sama tíma hafa tveir bandarískir njósnarar hafa verið teknir á Kúbu. Það er búinn að vera díalogur í gangi og niðurstaðan virðist vera að það fara fram fangaskipti og svo virðist sem meiri viðræður hafi átt sér stað og niðurstaðan er jákvæð,“ segir Erpur. 

Erpur segir vandamálið við viðskiptaþvinganirnar, sé að þrýstihópar ráði för. „Það skiptir engu máli hvað bandaríska þjóðin vill, eða Obama, heldur bara ríkustu þrýstihóparnir. Kúbverska mafían í Miami, sem missti hóruhúsin sín og spilavíti í byltingunni á Kúbu, þeir eiga rosalegan pening og þeir hafa dælt pening í að viðhalda viðskiptabanninu.“

„Þegar ég hitti Bandaríkjamenn finnst þeim flestum þetta viðskiptabann fáránlegt. Obama virðist samt vera opinn fyrir því að afnema viðskiptahömlur en Repúblikanar eru með meirihluta í báðum deildum og ekki líklegt að þeir samþykki það að öllu leiti.“

Versla bara við suma kommúnista

„Þetta er undarlegt mál, því ef viðskiptabann Bandaríkjamanna snýst um að þeir vilji ekki versla við kommúnista, þá ættu þeir líka að loka á öll viðskipti við Kína. Eins og rapparinn Jay-Z rappar um í lagi sem hann samdi þegar hann hélt upp á brúðkaupsafmælið sitt á Kúbu, þá eru lögin sem hann selur í Bandaríkjunum tekin upp á hljóðnema sem framleiddur er í Kína.“

„Margir Bandaríkjamenn bíða þess í ofvæni að viðskiptabanninu verði aflétt.Kúbverjar eru algjörir fyrirliðar þegar kemur að tóbaks- og rommframleiðslu auk þess sem ferðamannaiðnaðurinn er stöðugt að stækka,“ bætir Erpur við. 

Fyrir almenna Kúbverja eru fréttir gærdagsins jákvæðar, að sögn Erps, því í þeim felst að ekki verður lokað á fjármagnsflutninga frá Bandaríkjunum til Kúbu. Það þýðir að Kúbverjar í Bandaríkjunum geta sent peninga heim til fjölskyldunnar í heimalandinu, en slíkt er bannað í dag. 

Menningin mun áfram lifa

Erpur hefur ekki áhyggjur af því að sérkenni Kúbu kunni að hverfa ef opnað verður á viðskipti við Bandaríkin. 

„Kúbverjar eru mjög miklir patríótar og þeim er umhugað um sína menningu sem er mjög sérstök á góðan hátt og rosalega mikil blanda. Þar er engin þjóðernisremba því menningin er blanda af spænskri, afrískri, bandarískri og rússneskri menningu“.

„Það sem mér finnst flottast er að Bandaríkjamenn eru að opna á landið eftir að þeir hafa ráðist endurtekið gegn landinu. Fleiri en 4 þúsund manns á Kúbu misst lífið í árásum Bandaríkjamanna m.a. í Svínaflóaárásinni. Bandarísk yfirvöld hafa líka reynt að myrða Fidel Castro mörg hundruð sinnum en þeir eru nú að átta sig á því að þú verður að virða sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Þetta er sigur þess að standa í fæturna, og að vera ekki hræddur við stórveldi.“

„Bílafloti Kúbu samanstendur enn mest af gömlum Chevroletum og Lödum, en þetta er hratt að breytast með auknum innflutningi frá Kína og Kóreu. Á yfirborðinu munu þessar breytingar hafa áhrif á ássýnd Kúbu en ef Kúbverjar vilja ekki fá McDonalds, þá bara sleppa þeir því. Það eru engir aðrir en þeir sem ráða því. Þeir hafa ákveðið að ráða sínum málum sjálfir, þeir bogna ekki undan stórveldum.“

Viðhalda því besta úr byltingunni

Erpur hefur sjálfur ferðast með hópa til landsins, þar sem hann hefur farið með þá í óhefðbundnar skoðunarferðir um landið sem honum þykir svo vænt um. 

„Ég reyni að fara þangað þegar ég kemst, bæði með hópa og einnig í sjálfboðavinnu, og til þess að slaka á. Það er rosalega gaman að sjá hvernig landið hefur breyst frá því ég fór þangað fyrst. Þeir halda í það fallegasta við byltinguna. Þar ríkir algjört jafnrétti í því m.a. að menntun er ókeypis, heilbrigðisþjónusta er fyrir alla, krakkar vinna ekki og þú sérð þau ekki betla á götunni, Þrátt fyrir allar þrengingar sem þjóðin hefur gengið í gegnum.“

„Raul Castro hefur gert góðar breytingar á landinu og opnað fyrir smárekstur og smáverslun og bændaverslun, og aflétt ferðahömlum. Þetta er eitthvað sem Kúbverjar hafa kvartað yfir þegar ég hef talað við þá, en Raul er að breyta þessu. Það finnst mér mjög jákvætt,“ segir Erpur að lokum. 

Sjá frétt mbl.is: Kúbanska þjóðin fagnar öll

Raul Castro, forseti Kúbu, og Barack Obama, Bandaríkjaforseti.
Raul Castro, forseti Kúbu, og Barack Obama, Bandaríkjaforseti. AFP
Kúbverskur fangi var leystur úr fangelsi í Bandaríkjunum í gær …
Kúbverskur fangi var leystur úr fangelsi í Bandaríkjunum í gær eftir að hafa setið inni í 15 ár. AFP
AFP
Ekki eru allir sáttir með ákvörðun Bandarískra yfirvalda.
Ekki eru allir sáttir með ákvörðun Bandarískra yfirvalda. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert