Bjóða app gegn ebólu

Af vefsíðunni Zappkit.com
Af vefsíðunni Zappkit.com Skjáskot af vefsíðunni Zappkit.com

Fyrirtæki í Hafnarfirði selur snjallsímaforrit sem á að hafa áhrif á fjölda sjúkdóma, þar á meðal ebólu, með hjálp rafskauta sem senda út hljóðtíðnir. Einn eigenda fyrirtækisins segir tækið byggja á gamalli þekkingu og unnið sé að því að fá CE-vottun fyrir það. Ebólutíðnin hafi veri gefin út sem „flipp“.

Zappkit er uppfinning hafnfirska fyrirtækisins Allt hitt fyrir heilsuna og er auglýst á vefsíðunni Zappkit.com. Tækið samanstendur af snjallsímaforriti fyrir Android-síma sem ber nafnið Z-app og magnara með rafskautum.

Samkvæmt lýsingu á vefsíðunni sendir smáforritið út tíðni til magnarans um heyrnatólainnstungu símans. Hann magnar merkið og sendir það til rafskautanna sem fest eru á líkama notandans. Tíðnirnar eru þá sagðar ná takmarki sínu auðveldlega.

Tæknin er sögð byggjast á því að allir hlutir hafi sína eigin tíðni. Hægt sé að brjóta alla hluti með eigintíðni þeirra, eins og hljóð með sömu eigin tíðni og kristalsglas getur brotið glasið. Tækið noti eigin tíðnir sýkla, þar á meðal veira, baktería og sveppa, í þessum tilgangi.

Z-appið er sagt búa yfir 1.400 tíðnum. Á vefsíðu á vegum Alls hins má finna lista yfir sjúkdóma og kvilla sem tíðni er sögð hafa áhrif á. Þar má finna allt frá andremmu til krabbameins, sykursýki og þunglyndis.

Á vefsíðu bandarísku krabbameinssamtakanna kemur fram að matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnun landsins viðurkenni engin tæki sem byggist á hljóðtíðnum sem lögmæt lækningartæki. Stofnunin hafi ásamt öðrum rannsakað nokkur fyrirtæki og varað þau við því að setja fram fullyrðingar sem ekki væri fótur fyrir. Sum þeirra hefðu verið sektuð og önnur neyðst til að breyta auglýsingum sínum.

Engin loforð en einn segist hafa losnað við lifrarbólgu C

Á vefsíðunni er einnig að finna hlekk á ókeypis smáforrit með því sem sagt er eigin tíðni ebóluveirunnar. Þar eru sem flestir hvattir til þess að ná sér í forritið, nota í samræmi við leiðbeiningar sem finna má í því og deila því með vinum og ættingjum. Sérstaklega er þó tekið fram að lækning á sjúkdómnum sé ekki tryggð með notkun forritsins.

„Við getum ekki og viljum ekki lofa lækningu við sjúkdómnum eða einkennum hans. Ef þú ert veikur, leitaðu læknisaðstoðar nú þegar,“ segir á vefsíðunni.

Sama fyrirvara er að finna neðst á vefsíðunni um Zappkit. Engri lækningu eða áhrifum á einkenni sé lofað og fólki ráðlagt að leita læknis sé það veikt.

Þrátt fyrir það er ofar á síðunni að finna umsagnir fólks sem er sagt hafa notað tækið. Þar segist til að mynda maður, sem sagður er heita Skúli, hafa losnað við lifrarbólgu C eftir að hann byrjaði að nota Zappkit en hann hafi þjáðst af sjúkdómnum í 19 ár. Í öðrum umsögnum lýsa notendur því hvernig þeir hafi notað það gegn gigt, sýkingu í tönn og jafnvel í stað sýklalyfja fyrir aðgerð.

Var selt á tæpar 50.000 krónur

„Við erum að framleiða þetta. Þetta er okkar hönnun og þróun. Við erum í augnablikinu í samþykktarferli með þetta sem lækningartæki upp á CE-stimplun þannig að þetta sé samþykkt til sölu í Evrópu,“ segir Ólafur Einarsson, rafeindaiðnfræðingur, einn eigenda Alls hins fyrir heilsuna. Hann hefur hannað Zappkit ásamt syni sínum sem hann segir vera eðlisfræðinema.

Upphaflega segir hann að fyrirtækið hafi selt uppfinningu sína á 49.900 krónur áður en þeir gerðu sér grein fyrir að þeir þyrftu vottun fyrir því. Nú getur fólk því keypt snjallsímaforritið í Google Play Store á 7,99 dollara. Til að fá magnarann og rafskautin þarf hins vegar að hafa samband við fyrirtækið og óska eftir því.

„Fólk þarf að vera 18 ára og eldra og skrifa upp á að það geri sér grein fyrir að þetta er ekki samþykkt ennþá. Við biðjum um stuðning sem er í raun andvirði tækisins og þá fær fólkið tækið og getur notað það þannig,“ segir Ólafur.

Hann segir þekkinguna sem tækið byggi á um það bil hundrað ára gamla. Heilmikið af vísindalegum upplýsingum séu til um hana. Í vottunarferlinu hafi fyrirtækið safnað ritrýndum vísindagreinum um þessa aðferð.

„Þú þarft ekki að fara lengra en niður á Landspítala eða sumar augnlæknastofur til að sjá hvernig eigintíðni er notuð í lækningum. Þetta er ekki mikið frábrugðið. Nýrnasteinar, gallsteinar og augnsteinar eru brotnir niður með tíðnum. Það er bara vel þekkt dæmi. Þetta er ekkert sem fólk ætti að hvá yfir þó að ég viti að læknar þykjast sumir hverjir ekki kannast við að eigintíðni sé notuð í lækningum,“ segir Ólafur.

Þjóðþekktir einstaklingar og aðrir keypt tækið

Áður seldi Allt hitt suður-afrískt tæki, Rife Resonator, sem byggði á sömu aðferðafræði og var CE-vottað sem lækningartæki, að sögn Ólafs. Það hafi hins vegar kostað allt upp undir 300.000 krónur, það hafi ekki verið eins meðfærilegt og Zappkit og kvartanir hafi borist vegna þess. Eftir nokkurra ára söfnun upplýsinga og gagna hafi þeir farið út í að hanna og framleiða eigin tæki.

„Við erum á lokastigunum í þessu rannsóknarferli. Það hefur gengið alveg ágætlega. Við reiknum með að vera tilbúin að kynna þetta á næsta ári,“ segir Ólafur sem segir fyrirtækið vinna með evrópskri vottunarstofnun. Hann vill þó halda því til hliðar hvaða stofnun sé um að ræða.

Eigintíðnir kvillanna sem er að finna í Z-appinu segir Ólafur að fyrirtækið fái úr The Rife Handbook. Það sé rúmlega 700 blaðsíðna handbók eftir Nenuh Sylver sem sé doktor í sínum fræðum. Á vefsíðu Sylver kemur fram að hún sé rithöfundur, uppfræðandi, listamaður og tónlistarkona. Þar er hún sögð hafa fengið doktorsgráðu í heilun, sálfræði og kynjafræðum.

Þessi aðferðafræði byggir á hugmyndum bandaríska uppfinningamannsins Royal Raymond Rife um að hægt væri að hafa áhrif á sýkla með tíðnum. Kenningum hans var hins vegar hafnað af læknavísindunum þar sem ekki var hægt að staðfesta niðurstöður tilrauna hans.

Ólafur segir marga hafa stutt framtakið, bæði þjóðþekktir einstaklingar og aðrir. Að jafnaði sé það verkjatæki en það komi sterkast út við að losa út vöðvaverki og aðra verki.

„Zappkit er mjög nátengt tækjum sem eru notuð víðsvegar sem verkjastillandi tæki. Þessi tæki eru nefnd Transcutaneous Electrical Nerve Stimulators. Það eru til fjölmargar CE-merktar útgáfur af þessu tækjum, sem eru notaðar t.d. til að hjálpa við linun á fæðingarverkjum, bakverkjum, tannpínu og verkjum við brot á rifbeinum, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig er það vel þekkt hjá sjúkraþjálfurum að þeir noti tíðnir til að lina upp vöðva og annað slíkt. Til eru fjölmargar rannsóknir sem sýna fram á árangur og virkni þessarar tækni,“ segir hann.

Ebóluappið sett fram í „flippi“

Hvað varðar ebólutíðnina sem er ókeypis á vefsíðunni og einnig að finna í Z-appinu sjálfu segir Ólafur að hægt sé að finna tíðnir fjölskyldu veirunnar á netinu. Engu sé lofað um virkni þess en þeir hafi ákveðið að gefa tíðnina út að gamni sínu. Engin reynsla sé af notkunin tíðnanna og birting þeirra sé sett fram án ábyrgðar.

„Ebóluappið var svona flipp, skulum við kalla það. En ef það virkar þá getur það virkað með því að keyra þessar tíðnir, eða þessi hljóð inn í stereógræjur og stilla hátt. Ef það virkar, en ég veit það ekki og hef ekki mikinn áhuga á að kanna það,“ segir Ólafur.

Allt hitt rekur einnig samnefnda vefsíðu þar sem auglýst er til sölu ósontæki, stólpípusett og regndropanudd svo eitthvað sé nefnt.

Í Z-app sem fyrirtækið Allt hitt býður til sölu er …
Í Z-app sem fyrirtækið Allt hitt býður til sölu er meðal annars að finna tíðnir sem sagðar eru við krabbameini. Skjáskot úr Z-app
Hægt er að nálgast tíðnir sem sagðar eru fyrir ebóluveiruna …
Hægt er að nálgast tíðnir sem sagðar eru fyrir ebóluveiruna á vefsíðunni Zappkit.com sem fyrirtækið Allt hitt heldur úti. Skjáskot af vefsíðunni Zappkit.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert