Blaðberi henti Fréttablaðinu í bunkum

„Þarna er um að ræða úrgang sem fellur til vegna ákveðinnar atvinnustarfsemi en ekki vegna reksturs heimilisins. Grenndargámarnir eru hins vegar hugsaðir til þæginda fyrir íbúana til þess að losa sig við úrgang sem fellur til vegna heimilisreksturs.“

Þetta segir Ragna I. Halldórsdóttir, deildarstjóri hjá Sorpu, í samtali við mbl.is. Haft var samband við mbl.is og bent á að heilum pakkningum af Fréttablöðum hefði verið hent við grenndargám í Grafarholti í Reykjavík. Væntanlega væri um að ræða afgang af blöðum hjá einhverjum sem ynni við að bera blaðið út. Var viðkomandi ekki par sáttur við að grenndargámar væru notaðir í þessum tilgangi. En eins og Ragna bendir á er slíkt ekki heimilt.

„Eftirlitið hjá okkur er þannig að við fylgjumst með grenndargámunum og fáum ábendingar um að þeir séu fullir og erum með þjónustuaðila sem þjónusta þá. En þegar við sjáum eitthvað svona lagað eða fáum ábendingar um það þá höfum við samband við viðkomandi aðila og hvetjum þá til að skila svona löguðu inn á endurvinnslustöðvar í stað þess að fylla grenndargáma. Þetta eru auðvitað ekki stórir gámar og eru ekki ætlaðir rekstraraðilum af neinu tagi,“ segir Ragna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert