Fólk beðið að hreinsa frá niðurföllum

Búist er við leiðindafærð á höfuðborgarsvæðinu í dag með einhverri …
Búist er við leiðindafærð á höfuðborgarsvæðinu í dag með einhverri hláku. mbl.is/G.Rúnar

Veðurstofa Íslands og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins biðja fólk um að hreinsa frá niðurföllum þar sem töluverð hlýindi munu vera í dag auk hvassviðris og úrkomu. Niðurföll eru mörg hver hulin snjó sem getur leitt til söfnunar vatns, sem frýs svo þegar kólna fer aftur á morgun. 

Veðurfræðingur á Veðurstofunni varar fólk við því að í dag gæti myndast leiðindafærð á höfuðborgarsvæðinu, með þeirri hláku sem fylgir veðrinu.

Varað er við stormi eða hvassviðri suðvestanlands í dag, 15-23 metrar á sekúndu. Í fyrstu með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Hægara verður norðan- og austanlands og lengst af þurrt. Mun vindurinn snúast úr suðaustan- í suðvestanátt í kvöld.

Veðurfræðingur hjá Vegagerðinni spáir vaxandi suðaustanátt sunnan- og vestanlands með snjókomu í fyrstu en síðan slyddu og rigningu eftir hádegi. Búast megi við hríðarveðri á fjallvegum s.s Hellisheiði, Bröttubrekku og á Fróðárheiði, einnig á Vestfjörðum fram eftir degi en slyddu seinnipartinn. Hlýnandi veður og fer að rigna víðast hvar á láglendi síðdegis.

Rignir fram á kvöld en þá snýst í hægari suðvestanátt með kólnandi veðri og
ísingarhætta mikil. Norðaustan- og austantil megi búast við ofankomu í dag, yfirleitt snjókomu en mögulega slyddu á láglendi. Kólnar þar í nótt og fyrramálið með snjókomu norðantil

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert