Kjarasamningar kennara dýrir

Bæjarstjórn Borgarbyggðar þarf að hagræða í rekstri.
Bæjarstjórn Borgarbyggðar þarf að hagræða í rekstri. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það var samið mjög vel við kennara í síðustu kjarasamningum og það reynir mjög á fjárhag sumra sveitarfélaga að fjármagna þá.“ Þetta segir Kolfinna Jóhannesdóttir, sveitarstjóri Borgarbyggðar. Hún segir að bæjarstjórn hafi staðið frammi fyrir 290 milljón króna gati við gerð fjárhagsáætlunar og þar af hafi um 180-190 milljónir verið tilkomnar vegna kjarasamninga við kennara.

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar var lögð fram með 4,5 miljón króna afgangi af rekstri.  Rekstrarjafnvægi náðist ekki á þriggja ára grunni eins og sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir.  Kolfinna segir að eftirlitsnefnd með fjárlögum sveitarfélaga hafi verið gerð kunnugt um þá stöðu.

Kolfinna segir að veltufé frá rekstri sé mjög lágt í Borgarbyggð og svigrúm sveitarfélagsins til að bregðast við nýjum útgjöldum sé mjög lítið. Það hafi því ekki verið auðvelt verkefni að ná saman fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. Það hafi m.a. verið gert með því að hækka fasteignaskatta. Með því að nýta betur þennan tekjustofn fáist hærra framlag frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Borgarbyggð hefur ákveðið að gera breytingar á skipulagi í Ráðhúsi Borgarbyggðar. Sjö starfsmönnum verður sagt upp störfum um áramót, en þremur hefur verið boðin endurráðning. Kolfinna segir ljóst að sveitarstjórnin þurfi á næsta ári að skoða alla möguleika til hagræðingar í rekstri.

Kolfinna leggur áherslu á að þrátt fyrir hagræðingu og aðhald í rekstri Borgarbyggðar sé bjart yfir samfélaginu. Mörg atvinnutengd verkefni séu í farvatninu í héraðinu og næsta nágrenni.

Skoða sölu á eignum

Við afgreiðslu fjárhagsáætlunar lagði Magnús Snorrason, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, lagði fram tillögu um að hafin verði vinna við undirbúning á sölu eignahluta Borgarbyggðar í Faxaflóahöfunum og Orkuveitu Reykjavíkur. Byggðarráð samþykkti að hefja undirbúning að gerð áætlunar um sölu eigna sveitarfélagsins, fasteignum og eignarhlutum í fyrirtækjum, á kjörtímabilinu. Tillögu Magnúsar var vísað til þeirrar vinnu.

Kolfinna sér ekki fyrir sér að eignarhluti Borgarbyggðar í Faxaflóahöfunum og Orkuveitu Reykjavíkur verði seldur í bráð. Skoða þurfi þessi mál vel frá öllum hliðum. Ekki komi til greina að selja nema viðunandi verð fáist.

Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri í Borgarbyggð.
Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri í Borgarbyggð. Morgunblaðið/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert