Aukið öryggi í vatnsmálum á Akranesi

Nýi hitaveitugeymirinn á Akranesi.
Nýi hitaveitugeymirinn á Akranesi. Ljósmynd/Orkuveitan

Búið er að taka í notkun  nýjan heitvatnsgeymi á Akranesi, en hann mun auka mjög afhendingaröryggi á heitu vatni í bænum. Gangi allt að óskum mun hann fyllast á aðfangadag jóla.

Orkuveitan ákvað fyrir réttu ári að ráðast í byggingu geymisins. Hann margfaldar heitavatnsforðann fyrir bæinn en oft þarf að grípa til hans vegna tíðra bilana á Deildartunguæð, lengstu heitavatnslögn landsins. Það svigrúm sem starfsmenn Orkuveitunnar munu hafa til að gera við slíkar bilanir án þess að þær komi niður á hitaveiturekstrinum í bænum lengist úr fjórum klukkutímum í fjórtán. Geymirinn stendur við dælustöð hitaveitunnar við Þjóðbraut, þar sem minni geymirinn var fyrir. Sá minni tekur 2.000 rúmmetra vatns en sá nýi 6.200.

„Þetta er nú einhver besta jólagjöf, sem ég get hugsað mér,“ segir Gissur Þór Ágústsson, svæðisstjóri Orkuveitunnar á Vesturlandi í samtali við Orkuveituna. „Öryggið í hitaveiturekstrinum eykst mikið en ekki síður öryggi okkar starfsfólks, sem nú verður er ekki í eins mikilli tímapressu að gera við í allskonar veðrum við allskonar aðstæður,“ bætir Gissur við.

Það er Ístak sem er verktaki við byggingu geymisins. Ýmis frágangur á byggingarstað er enn eftir og verður unnið að honum eftir því sem veður leyfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert