Afrekskona á öllum sviðum

Elva ásamt Magnúsi Þorkelssyni skólameistara.
Elva ásamt Magnúsi Þorkelssyni skólameistara.

Á föstudag brautskráðust 74 nemendur frá Flensborgarskóla í Hafnarfirði. 20 nemendur voru með meðaleinkunn yfir 8 en tveir nemendur sköruðu fram úr, þær Bára Kristín Björgvinsdóttir af náttúrufræðibraut, með meðaleinkunnina 9,38 og dúxinn Elva Björk Ástþórsdóttir af náttúrufræðibraut, með 9,54.

Elva Björk lauk stúdentsprófi á þremur árum en hún var á svokölluðu íþróttaafrekssviði.
„Ég er á fullu í fótbolta og var á aukaæfingum í fótbolta og styrk tvisvar í viku,“ segir Elva um hvað íþróttaafrekssviðið felur í sér. „Fótbolti hefur alltaf verið það skemmtilegasta sem ég geri. Fjölskyldan mín hefur mikinn áhuga á boltanum og systkini mín æfa líka, svo þetta er allt í fjölskyldunni.“

Hér er því um sanna afrekskonu að ræða en hver skyldi formúlan vera að því að skara fram úr með þessum hætti? „Ég veit það ekki,“ segir Elva hlæjandi, hógværðin uppmáluð. „Ég skipulegg mig vel og klára hlutina.“

Elva spilar með FH og er kantmaður. Hún hefur æft frá sex ára aldri og er hvergi nærri hætt. „Ég ætla að vinna í hálft ár  og reyna að komast á fótboltastyrk til Bandaríkjanna. Ég er að vinna í þessu núna og það er eiginlega bara allt að smella saman,“ segir Elva.

Hún segist enn óákveðin um hvaða háskólanám verði fyrir valinu en að hún hafi einna helst áhuga á raungreinum, arkitektúr eða grafískri hönnun. Hvað staðsetningu háskólanámsins varðar er hún hinsvegar með skýrari hugmyndir og langar einna helst til Boston eða Flórída. „Mér finnst bara mjög spennandi að fara út og þetta er bara ný áskorun.“

Útskriftarnemar Flensborgar
Útskriftarnemar Flensborgar Ljósmynd/Flensborg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert