Aldrei fleiri pakkar undir jólatré Kringlunnar

Margir pakkar eru komnir undir tréð í Kringlunni.
Margir pakkar eru komnir undir tréð í Kringlunni.

Aldrei hafa fleiri pakkar safnast undir jólatré Kringlunnar en verslunarmiðstöðin hefur undanfarna daga staðið fyrir pakkasöfnun fyrir jólin í samstarfi við Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands.

Leikurinn Kringlujól spilar stórt hlutverk í pakkasöfnuninni að sögn Baldvinu Snælaugsdóttur, markaðsstjóra Kringlunnar, en allir sem spila leikinn í snjallsímum sínum hjálpast að við að safna raunverulegum gjöfum sem fyrirtæki í Kringlunni gefa og eru lagðar undir jólatré verslunarmiðstöðvarinnar. „Fólk getur nú spilað endalaust með góða samvisku en því meira sem það spilar og lengra sem það kemst í leiknum þá fjölgar pökkunum undir trénu. Fólk er því að spila til góðs fyrir utan hvað það er skemmtilegt,” er haft eftir Baldvinu í fréttatilkynningu. 

Baldvina segir að margir einstaklingar hafi einnig sett pakka undir jólatréð og auk þess hafa skólabörn fjölmennt og jafnvel heilu bekkirnir með pakka. Sem dæmi má nefna að að allir 10. bekkingar í Sæmundarskóla í Grafarholti komu með gjafir undir jólatréð í stað þess að skiptast á gjöfum eins og venjan hefur verið í skólanum. Mæðrastyrksnefnd og Fjölskylduhjálp Íslands sjá um að útdeila pökkunum sem munu án nokkurs vafa gleðja marga á aðfangadagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert