Ófært á ýmsum fjallvegum

mbl.is/Ómar

Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum samkvæmt Vegagerðinni en hálkublettir á Sandskeiði. Hálka er einnig mjög víða á Suðurlandi en flughált er í Grafningi og í Kjósarskarði. Vestanlands er hálka og snjóþekja á flestum vegum. Flughált er í Hvítársíðu og á Útnesvegi á Snæfellsnesi og sömuleiðis flughálka fyrir vestan Búðardal og þar er einnig óveður. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Fróðárheiði.

Hálka eða snjóþekja á flestum vegum á Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum. Ófært er á Klettshálsi. Flughálka milli Brjánslækjar og að Kleifaheiði en þar er þæfingur. Þæfingsfærð er einnig á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum og flughálka á vegum í kringum Hólmavík og á Innstrandavegi. Í Ísafjarðardjúpi er snjóþekja eða hálka en flughálka frá Vatnsfjarðarhálsi og í Ögur. Snjóflóðahætta er á Súðavíkurhlíð.

Vegurinn um Þverárfjall er nú lokaður og þæfingsfærð og skafrenningur er á Vatnsskarði og Öxnadalsheiði. Snjóþekja og hálka er annars mjög víða á Norðurlandi en flughált frá Hvammstanga að Blönduósi og einnig á milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Þungfært er nú á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Hálka eða snjóþekja er á Austurlandi og sumstaðar skafrenningur og snjókoma. Ófært er yfir Fjarðarheiði og þæfingsfærð og skafrenningur á Oddskarði og Vatnsskarði eystra. Þungfært er á Vopnafjarðarheiði og austur að Jökuldal. Á Suðausturlandi er hálka mjög víða en flughált er á Mýrdalssandi og undir Eyjafjöllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert