Óvíst um framhald Al-Thani-málsins

Alls óvíst er hvert framhald Al-Thani-málsins svonefnda verður eftir að í ljós hefur komið að sérfróður meðdómandi í fjölskipuðum héraðsdómi átti persónulega og í gegnum fyrirtæki sín í umfangsmiklum lánaviðskiptum við Kaupþing banka og Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis. Hæstaréttar er að meta hvort ómerkja beri dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og vísa málinu til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný. 

Í Al-Thani málinu eru þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, sem var einn stærsti eigandi Kaupþings, ákærðir fyrir umboðssvik og hlutdeild í umboðssvikum. Héraðsdómur sakfelldi þá alla og dæmdi í þriggja ára til fimm og hálfs árs fangelsisvistar. 

Samkvæmt dagskrá Hæstaréttar stóð til að málflutningur færi fram 26. og 27. janúar næstkomandi. Sú dagskrá kann hins vegar að breytast því nýverið fékk rétturinn þær upplýsingar að einn þriggja dómara í málinu, endurskoðandinn Magnús G. Benediktsson, átti í umfangsmiklum lánaviðskiptum, meðal annars við Kaupþing banka. 

Þannig voru tvö fyrirtæki sem hann tengist nánum böndum tekin til gjaldþrotaskipta snemma árs 2013 og síðastliðið vor. Ekkert fékkst upp í kröfur annars félagsins og er skiptum á hinu ekki lokið. Skuldir þess síðarnefnda námu 1,3 milljarði króna í árslok 2012 og var eigið fé neikvætt um 650 milljónir króna. Meðal krafna í félögin eru kröfur sem upphaflega voru í eigu Kaupþings banka og Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis. 

Umrædd fyrirtæki fóru illa út úr efnahagshruninu haustið 2008 og bæði sökum þess og þar sem sakarefni Al-Thani-málsins lýtur að viðskiptum Kaupþings banka hefur spurning verið sett við hæfi Magnúsar til að dæma í málinu. 

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Hæstiréttur til skoðunar hvort rétt sé að boða til málflutnings um formhlið málsins eingöngu vegna þessara nýju upplýsinga en telji rétturinn að Magnús hafi verið vanhæfur til að taka sæti í dómnum kemur vart annað til greina en að ómerkja niðurstöðu héraðsdóms.

Reikna má með því að afdrif Al-Thani-málsins skýrist fyrri hluta næsta mánaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert