Óveður á Reykjanesbrautinni

Frá Reykjanesbraut. Myndin er úr safni.
Frá Reykjanesbraut. Myndin er úr safni.

Stormurinn sem spáð var er nú farinn að láta til sín taka og er óveður á Reykjanesbraut og Suðurstandarvegi samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar. Slæm færð er og hált á vegum um allt land.

Krapasnjór og óveður er á Hellisheiði og Mosfellsheiði en krapasnjór og éljagangur í Þrengslum. Hálka, hálkublettir eða krapasnjór er í uppsveitum á Suðurlandi.

Þæfingsfærð og óveður er á Bröttubrekku. Flughálka er á Laxárdalsheiði og í kringum Búðardal. Hálka og óveður er á Holtavörðuheiði. Þæfingsfærð er á Heydal og þungfært í Álftafirði. Hálka og éljagangur er á Fróðárheiði. Hálka, hálkublettir eða krapasnjór er á öðrum leiðum á Vesturlandi.

Á Vestfjörðum er flughálka á Raknadalshlíð og í Dýrafirði. Snjóþekja og éljagangur er á Mikladal, Hálfdán og Kleifaheiði. Þæfingsfærð er á Barðaströnd, Hjallhálsi og á Innstrandavegi. Þungfært er frá Skálmarnesi að Klettshálsi og í Bitrufirði. Annars er hálka eða snjóþekja.

Á Norðurlandi vestra eru hálka, hálkublettir eða krapasnjór á flestum leiðum. Hálka og óveður er við Stafá á Siglufjarðarvegi.

Flughálka er í Köldukinn og á Mývatnsöræfum. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Hálka, hálkublettir eða krapasnjór er á öðrum leiðum á Norður- og Norðausturlandi.

Á Austurlandi er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum, þó er flughálka í Hróarstungu.
Hálka eða hálkublettir eru með suðausturströndinni, þó er orðið autt frá Djúpavogi að Höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert