SPIDER-maður kominn heim

Jón Emil snævi þakinn eftir að hafa ljósmyndað mörgæsir nærri …
Jón Emil snævi þakinn eftir að hafa ljósmyndað mörgæsir nærri McMurdo-stöðinni þar sem hann dvaldist á Suðurskautslandinu. Anne Gambrel

Að minnsta kosti heils árs verk verður að fara yfir gögnin sem sjónaukinn SPIDER aflaði á flugi sínu yfir Suðurskautslandið, að sögn Jóns Emils Guðmundssonar stjarneðlisfræðings. Hann dvaldi í þrjá mánuði fjarri eiginkonu, fjölskyldu og vinum, á þessum afskekkta stað vegna verkefnisins sem gæti varpað ljósi á mögulega eina merkustu vísindauppgötvun síðustu ára.

Hópur vísindamanna sendi SPIDER á loft með risavöxnum helíumloftbelg á nýársdag en hann rannsakaði ljós örbylgjukliðsins. Hann er bakgrunnsgeislun sem fyllir allan alheiminn og er nokkurs konar endurómur frá Miklahvelli. Jón Emil hefur unnið við verkefnið undanfarin ár ásamt félögum sínum við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og fleiri.

Sjónaukinn er nú lentur á Suðurskautslandinu eftir sextán daga flug og virðist allt hafa gengið að óskum. Sjálfur kom Jón Emil heim til eiginkonu sinnar í Bandaríkjunum á sunnudag en hann hafði þá verið á Suðurskautslandinu frá 28. október.

„Við erum himinlifandi. Við sjáum þó aðeins brot af gögnunum í rauntíma og viljum því ekki fullyrða neitt fyrr en við fáum hörðu diskana í hendur og horfum á gögnin. Af því sem við sjáum lítur út fyrir að það sé allt í toppstandi,“ segir Jón Emil í samtali við mbl.is.

Eltu hvítt hylki 200 km leið í snjónum

Sjónaukinn lenti töluvert langt frá McMurdo-stöðinni þar sem SPIDER-teymið bjó og sendi tilraunina á loft. Jón Emil segir að nú fari fram samskipti við fólk sem er nær lendingarstaðnum um að fara að sækja gögnin úr sjónaukanum. Næsta sumar sé svo stefnt að því að sækja sjónaukann í heild sinni. Vel er búið um hörðu drifin í sjónaukanum þannig að þau eiga að haldast heil þrátt fyrir kaldranalegar aðstæður Suðurskautslandsins.

„Við erum með þetta í sérstökum hylkjum sem þola flest. Þau eru loftþétt og harðlæst og því ætti veðráttan ekki að bíta á þeim,“ segir hann.

Sem betur fer fyrir teymið þá virkuðu sprengiboltar sem losa loftbelginn og seinni fallhlífina frá SPIDER. Lendingin virðist því hafa gengið vel. Aðstandendur annarrar tilraunar voru ekki svo heppnir.

„Það hefur komið fyrir að aðskilnaðurinn klikki og fallhlífin haldist föst við tilraunina. Svo kemur vindur og þá dregst tilraunin auðvitað eftir Suðurskautslandinu. Það gerðist einu sinni að tilraun dróst hátt í 200 kílómetra eftir Suðurskautslandinu og dreifði braki yfir ísinn, þar á meðal hvítum hylkjum sem innihéldu hörðu drifin. Þau urðu sem sagt að leita að þessum hvítu hylkjum í snjónum eftir 200 kílómetra línu!“ segir Jón Emil sem tekur jafnframt fram að brakið sé að sjálfsögðu allt fjarlægt á endanum.

Gætu varpað ljósi á tilvist þyngdarbylgna

Þegar gögnin verða komin í hús tekur við mikil vinna við að fara í gegnum þau og greina. Það tekur ekki skemmri tíma en heilt ár og jafnvel meira, að mati Jóns Emils. Niðurstaðna er því ekki að vænta fyrr en á næsta ári í fyrsta lagi. Menn hafa gert sér vonir um að mælingar SPIDER geti varpað frekara ljósi á tilvist svonefndra þyngdarbylgna en hópur vísindamanna við BICEP2-verkefnið tilkynnti um fund þeirra á síðasta ári. Seinna varð ljóst að merkið sem BICEP2-menn námu kom að mestu frá rykögnunum í okkar eigin vetrarbraut. Því heldur leitin að þessum þyngdarbylgjum áfram.

„Hvort ummerki þyngdarbylgna leynist í þessum gögnum verður bara að koma í ljós. Við vonum að mælingarnar hafi tekist vel og að niðurstöður okkar geti auðgað þessa umræðu,“ segir Jón Emil.

Forréttindi að fá að dvelja á Suðurskautslandinu

Jón og Dórótea, eiginkona hans sem er einnig nemendi í Princeton-háskóla, verða í Princeton út þetta skólaár en eftir það munu þau halda annað. Hann ætlar þó að halda áfram að vinna við SPIDER-verkefnið. Verkefnið hefur verið langan tíma í þróun, u.þ.b. 5-8 ár eftir því hvernig er talið. Það tafðist meðal annars eftir að þingmenn repúblikana í Bandaríkjunum stóðu fyrir því að starfsemi alríkisstjórnarinnar staðnaði að hluta árið 2013.

„Að vissu leyti varð maður rosalega feginn að sjá þetta komast í loftið eftir allan þennan tíma og fyrirhöfn. Á sama tíma helltust yfir mann áhyggjur af því hvað færi nú úrskeiðis. Hefði ég átt að herða þessa skrúfu aðeins betur eða tengja þennan kapal öðruvísi. Nú getum við andað léttar. Það er eiginlega erfitt að trúa því að þetta hafi gengið svona vel,“ segir hann.

Það voru forréttindi að fá að dvelja á Suðurskautslandinu, að sögn Jóns Emils og umhverfið þar er ótrúlega fallegt. Eftir þriggja mánaða dvöl hafi þó sjarminn að einhverju leyti farið af því. Hann þurfti einnig að vera fjarri eiginkonu sinni, fjölskyldu og vinum í ársfjórðung vegna verkefnisins.

„Hún fyrirgefur mér það. Hún vissi áður en hún giftist mér að þetta væri í undirbúningi og stendur í þessu með mér. Það er náttúrlega búið að stefna að þessu í 5-6 ár,“ segir Jón Emil spurður að því hvort eiginkona hans hafi haft skilning á þessum langa aðskilnaði þeirra.

Fyrri fréttir mbl.is:

SPIDER lentur á Suðurskautinu

Skaut upp sjónauka á nýársnótt

Myndar fyrsta ljós alheimsins

Hluti af SPIDER-teyminu fylgist með á skotstaðnum.
Hluti af SPIDER-teyminu fylgist með á skotstaðnum. Steve Benton
SPIDER-sjónaukinn rannsakar skautun á ljósi örbylgjukliðsins.
SPIDER-sjónaukinn rannsakar skautun á ljósi örbylgjukliðsins. Jón Emil Guðmundsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert