338 þurftu gistingu vegna ófærðar

mynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

 338 manns þurftu á gistingu að halda í nótt vegna ófærðarinnar. Brjálað veður var á heiðum, m.a. Öxnadalsheiði þar sem björgunarsveitir stóðu í ströngu, líkt og sjá má á myndskeiði hér að neðan.

Aðgerðum björgunarsveita er lokið á Holtavörðuheiði í bili. Í gærkvöldi stóðu þær í ströngu við að koma fólki, er fest hafði bíla sína, niður af heiðinni og í húsaskjól. Stóð sú vinna fram yfir miðnætti. Samkvæmt talningu björgunarsveita þurftu 338 manns á gistingu að halda í nótt vegna ófærðarinnar, segir í frétt frá Landsbjörgu.

Sveitirnar voru svo aftur komnar á stjá um klukkan 07:00 í morgun enda verkefni dagsins ærin. Þegar vegurinn yfir heiðina var opnaður fylgdu þær lest um 25 bíla yfir. 14 bílar, sem skildir voru eftir í gærkvöldi voru losaðir og fluttir til eigenda sinna eða eigendurnir fluttir í bílana. Einnig aðstoðuðu sveitirnar við að koma flutningabíl sem oltið hafði á réttan kjöl sem og tengivagni sem var á hliðinni.

Eitthvað var um að ökumenn virtu ekki lokanir Vegagerðar og lögreglu, þrátt fyrir að vegum sé lokað með slám, skiltum og björgunarsveitabílum með blikkandi ljós. Í þeim tilvikum var lögreglu gert viðvart og eiga ökumennirnir von á viðurlögum vegna þessa.

Fréttir mbl.is:

Illugi feginn að hafa Staðarskála

„Mikið fjör“ í Staðarskála

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert