Reynt að gabba íslenska netverja

Hér má sjá dæmi um tölvupósta sem sendir eru nú …
Hér má sjá dæmi um tölvupósta sem sendir eru nú til íslenskra netnotenda. Um gabb er að ræða. Skjáskot af platpósti

Enn og aftur berast lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynningar um að verið sé að reyna að gabba fólk á netinu. Í dag hafa okkur borist tilkynningar um að Apple notendur séu að fá tilkynningu um að þeir hafi verslað á á iTunes og fá með tilkynningunni tengil til að smella á ef þeir hafa ekki átt í þessum viðskiptum.

Glæpurinn er að tengilinn vísar á falska síðu sem þó lítur rétt út. Þar er fólk beðið að skrá sig og ef það gerir það þá fá þjófarnir þær upplýsingar og geta nýtt sér til að stela.

Lögreglan biður því fólk enn og aftur að vera á varðbergi gagnvart öllum slíkum sendingum. „Kannið sendanda, horfið á tengiskránna, er þetta póstur áþekkur þeim sem að þið hafið fengið áður. Ef minnsta grunsemd vaknar þá skuluð þið sjálf finna þjónustupóst viðkomandi á netinu og senda inn fyrirspurn um erindið,“ segir í frétt um málið sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur birt á Facebook-síðu sinni.

Einföld varnaraðgerð er líka að forðast alla tengla sem ykkur eru sendir, segir í lögreglan. „Ef þið þurfið að kanna stöðu ykkar á Ebay, Paypal, AliExpress, Applestore eða álíka þá er best að fara einfaldlega á upphafssíðu þeirra en alls ekki í gegn um tengil sem ykkur er sendur.

Verið á varðbergi, verið meðvituð um hættuna og ræðið þetta meðal fjölskyldu og vina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert