Læknar með fjórfaldar dagvinnutekjur verkafólks

Læknar við störf.
Læknar við störf. mbl.is/ÞÖK

Ef leiðrétt er fyrir verðlagi og sköttum kemur í ljós að læknar á Íslandi eru með 15% hærri heildartekjur að meðaltali en kollegar þeirra á Norðurlöndunum. Alþýðusambandið telur því vandséð að upphrópanir um yfirvofandi landflótta læknastéttarinnar eigi rót að rekja til launakjara.

ASÍ hefur reglulega gert samanburðarkannanir á lífskjörum hér og á Norðurlöndunum og þá horft bæði til tekna, skatta sem og ýmissa tilfærslna eins og barna- og húsnæðisbóta. Í dag var ein slík birt. Er á það bent að í nýafstaðinni deilu Læknafélags Íslands við fjármálaráðuneytið hafi mikið farið fyrir umræðu um kjör lækna miðað við það sem þekkist í nágrannalöndunum. „Fullyrt var að við blasti mikill flótti lækna til annarra landa vegna bágra kjara þeirra hér á landi. Afar erfitt var fyrir almenning að átta sig á hvað væri rétt í þessu því lítið er til af upplýsingum um launa- og starfskjör lækna.“

Þá segir að ekki sé hægt að fletta upp á vef Hagstofu Íslands dagvinnulaunum og heildartekjum lækna líkt og á hagstofum hinna Norðurlandanna og Fjármála- og efnahagsráðuneytið birtir þessar upplýsingar ekki fyrir Læknafélag Íslands líkt og það gerir fyrir nánast alla aðra hópa. „Frá þessari meginreglu var þó gerð undantekning skömmu fyrir jól, þegar fjármála- og efnahagsráðuneytið upplýsti hverjar heildartekjur lækna voru að meðaltali á árinu 2013. Ekki var upplýst um dagvinnutekjur en þetta gerir það engu að síður kleift að bera saman heildartekjur lækna hér á landi við hin Norðurlöndin.“

Vandi heilbrigðiskerfisins vart leystur

ASÍ segir að mun minni munur sé á óleiðréttum tekjum lækna hér á landi samanborið við nágrannalöndin. Mestur er þessi munur gagnvart Danmörku og Noregi, en tekjur lækna í Svíþjóð eru lægri en hér. Ef leiðrétt er fyrir verðlagi og sköttum kemur hins vegar í ljós að læknar á Íslandi eru með 15% hærri heildartekjur að meðaltali en kollegar þeirra á Norðurlöndunum.

„Samkvæmt þessu er vandséð að upphrópanir um yfirvofandi landflótta læknastéttarinnar eigi rót að rekja til launakjara. Mun líklegra er að flóttann megi rekja til vinnuaðstöðu og hættuna á því að þekking þeirra úreldist við það að nota gömul lækningatæki og eldri tegundir af lyfjum við lyflækningar. Ekki skal þó dregið úr líkunum á því að viðvarandi stöðugleiki á hinum Norðurlöndunum, lægri vextir og öflugra velferðarkerfi virki sem segull á lækna eins og annað launafólk enda hafa um 20 þúsund Íslendingar valið að flytjast búferlum til Norðurlandanna á síðustu árum.“

Hins vegar segir að vandinn við nýgerða kjarasamninga lækna, og þann kostnaðarauka sem verði í heilbrigðiskerfinu, sé líklegri til að færa lausn á þessum vanda fjær en nær og því standi heilbrigðiskerfið veikar að vígi en áður en ekki betur.

Ef litið er til heildartekna læknastéttarinnar kemur í ljós að hún er almennt hálaunastétt á Norðurlöndunum og liggja tekjur hennar nokkuð hærra en hjá stjórnendum á almennum vinnumarkaði. „Það er hins vegar sláandi að sjá hvað margfelldi tekna lækna er miðað við verkafólk hér á landi en hér eru læknar með ríflega fjórfaldar dagvinnutekjur verkafólks og launamunur þessara hópa mun meiri hér á landi en í nágrannalöndunum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert