Óku undir áhrifum á stolnum bíl

mbl.is/Þórður Arnar

Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt að því er fram kemur í dagbók lögreglu. Fjórir voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Þar af var einn án ökuréttinda auk þess sem par sem handtekið var í Hafnarfirði vegna slíkra grunsemda er jafnframt grunað um að hafa stolið bifreiðinni en búið var að setja á hana röng skráningarnúmer. Að lokinni sýnatöku var parið vistað í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Skömmu fyrir miðnætti var tilkynnt líkamsárás við bar í Breiðholti. Var árásarþoli með áverka í andliti en vildi ekki aðstoð lögreglu við að komast á slysadeild þar sem hann hugðist vera áfram á barnum. Maðurinn sagðist þekkja geranda og hann myndi koma frekari upplýsingum til lögreglu síðar.

Á þriðja tímanum í nótt var maður handtekinn í miðborginni vegna gruns um eignaspjöll. Meðal annars er manninum gefið að sök að hafa valdið skemmdum á bifreið en fyrst var tilkynnt að maðurinn ætti í slagsmálum við konu í leigubifreið. Konan var hins vegar farin af vettvangi er lögregla kom og var maðurinn vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Á fimmta tímanum var tilkynnt slys á veitingahúsi við Austurstræti þar sem manneskja féll í stiga. Örskömmu síðar var tilkynnt líkamsárás, einnig á veitingahúsi við Austurstræti. Hlaut árásarþoli smávægilegt sár á enni og gat leitað sjálfur á slysadeild til aðhlynningar.

Korter fyrir fimm var maður í annarlegu ástandi handtekinn á bifreiðastæði við Glaðheima.  Maðurinn gat ekki gert grein fyrir sér og var því vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast.

Þá var tilkynnt um eld í dekkjagámi við hesthúsahverfi í Mosfellsbæ klukkan fimm í morgun og gekk slökkviliði greiðlega að slökkva eldinn. Að sögn slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins var nokkur erill í nótt og farið í yfir 30 útköll vegna sjúkraflutninga auk þess sem vatnsleki kom upp í Breiðholti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert