Má bjóða þér píkupopp eða typpanasl?

Ýr Jóhannsdóttir með húðlita typpatrefilinn góða.
Ýr Jóhannsdóttir með húðlita typpatrefilinn góða. mbl.is/Eggert

Þetta byrjaði allt með kynfæramyndunum mínum sem ég tók síðasta sumar, en mér fannst þær svo sterkar og fallegar að mig langaði að vinna eitthvað meira með þær og það sem þær standa fyrir. Frá því ég fór að sýna myndirnar í kynfræðslu í skólanum hef ég komst að því að við verðum að opna umræðuna miklu meira, við erum með gamlar staðalmyndir um kynfæri og við eigum erfitt með að tala um þetta, við þorum ekki einu sinni að nefna kynfærin sínum réttu nöfnum. Ég hafði því samband við nokkra hönnuði sem ég fékk til liðs við mig til að búa til viðburð,“ segir Sigríður Dögg Arnardóttir kynfræðingur, en hún og fimm aðrir listamenn mynda hópinn Sköpun, sem ætlar að vera með viðburð á Hönnunarmars undir heitinu Sköpun/Genitalia.

Kynfærahúmor er góður

„Hvert og eitt okkar gerir eitthvað á sínum forsendum, sumir vinna abstrakt, aðrir bókstaflega, sumir með texta, aðrir með myndum. Þessir fimm hönnuðir eru með ólíkan stíl og mér finnst það styrkleiki. Anna Rakel er til dæmis grafískur hönnuður og hún fer í allt aðra átt með sín verk en við hinar. Við Anna erum búnar tala svo mikið saman um intersex og málefni transeinstaklinga og fleiri baráttuhópa og við það opnaðist heimur fyrir Önnu sem hafði verið henni lokaður. Hún skellti sér í mikla heimildarvinnu og er komin með sterkar skoðanir á þessum málum. Ýr verður með typpatrefil sem hún hefur prjónað og hún verður líka með buddur og punga sem hún hefur búið til, Anna Rakel vinnur með texta og hugmyndir um kyn og kynvitund og hvað skilgreinir okkur. Alda Lilja verður með teikningar þar sem húmorinn kemur inn og Krista Hall er líka með kynfærahúmor í sinni innsetningu þar sem hún leikur sér með kynfærin, hún teiknaði frábæra mynd af píkupoppi, sem er af píku sem popp frussast út úr. “

Alda Villiljós er einn af meðlimum hópsins og vinnur bæði með ljósmyndir, texta og teikningu í nálgun sinni.

„Ég hef tekið landslagsmyndir sem minna á nakta líkama eftir að ég hef unnið þær og breytt þeim. Ég ætla líka að vera með boli sem verða með áprentuðum heitum yfir kynfæri. Ég leitaði að öllum orðum sem ég fann yfir kynfæri í samheitaorðabók og í slangurorðabók, og komst að því að það er til ótrúlegur fjöldi heita á íslensku yfir kynfæri. Ég ætla að leika mér að þessum heitum, blanda saman þeim teprulegu og þeim grófu, en það er mikil tilhneiging til að milda eða fela, sérstaklega í orðum yfir píkuna. Við verðum að geta talað um þennan líkamspart. Við erum öll með kynfæri, við ölumst upp við að sjá kynfærin á foreldrum okkar og systkinum og á öðru fólki í sturtunni í sundlaugunum, en samt er enn skömm og tabú í tengslum við kynfæri. Sýningin okkar er innlegg í því að breyta þessu og gera kynfæri opinber án feimni eða skammar. Húmor er líka mjög gott tæki til að nálgast þetta málefni.“

Ákveðum margt um manneskju út frá kynfæri

En sýningin snýst ekki aðeins um kynfæri heldur líka um vangaveltur tengdar kyni. Sigga Dögg verður með kynfæraljósmyndir og vídeóverk, af því að hún vill að fólk endurskoði hvaða hugmyndir það hefur um kynfæri.

„Ég verð á staðnum og vil frá viðbrögð frá áhorfendum. Ég ætla að pönkast svolítið með þetta. Kynlíf er oft kynfæramiðað, það fyrsta sem við sjáum þegar börnin okkar fæðast eru kynfæri þeirra og meira að segja áður en þau fæðast þá kíkjum við á kynfærin. Þetta snýst svo mikið um kynfæri og við virðumst ákveða svo margt um manneskjuna út frá þessu eina atriði. Mér finnst áhugavert að velta upp spurningunni: Hvað þegar kynfæri passa ekki inn í þetta fyrirfram gefna mót?“ segir Sigga Dögg og bætir við að þegar hún hefur sýnt unglingum kynfæramyndirnar þá halda þau oft að ákveðið útlit kynfæris segi eitthvað um manneskjuna sem það tilheyrir. „Til dæmis benda þau oft á eina af píkumyndunum og segja: Þetta er pottþétt píka á transmanneskju, konu sem fæddist með typpi en fór í kynleiðréttingu. En þegar ég segi þeim sannleikann, sem er sá að þessi píka tilheyri mjög frægri íslenskri konu sem er ekki trans en hefur oft verið valin í topp tíu sætin yfir fallegustu konur á Íslandi, þá verða þau mjög hissa. En þannig komst þau að því að það er ekki hægt að flokka kynfæri eftir fólki eða öfugt. Rétt eins og það er ekki hægt að sjá á píkumyndunum hver þeirra tilheyrir lesbíu. Það er gaman að taka kynfæraumræðuna í allar áttir,“ segir Sigga Dögg og bætir við að blaðamaður frá Bandaríkjunum ætli að mæta á sýninguna og fjalla um hana.

Kynfæri í ólíkum formum

Hópinn Sköpun skipa þau Anna Rakel, Alda Lilja, Alda Villiljós, Krista Hall, Sigga Dögg, Ýrúrarí.

Viðburðurinn þeirra Sköpun / Genitalia, þar sem hægt verður að skoða kynfæri í ólíkum formum og myndum, verður í Sjóminjasafninu úti á Granda.

Sýningin hefst á fimmtudag í næstu viku hinn 12. mars og stendur fram á laugardag.

Á föstudeginum verða þau með sérstakt partí sem þau kalla Kynfærakokteil, frá klukkan 17 til 19.

a Alda Villiljós og Sigga Dögg utan við Sjóminjasafnið þar …
a Alda Villiljós og Sigga Dögg utan við Sjóminjasafnið þar sem viðburðurinn Sköpun/Genital verður. mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert