LæknaTómas er TúrbóTómas

Tómas Guðbjartsson.
Tómas Guðbjartsson. Kristinn Ingvarsson

„Ég er alveg fyrsti maðurinn til að viðurkenna að þegar maður er í svona mörgu er ýmislegt annað sem situr á hakanum. Konan mín hefur stundum sagt við mig að ég verði að muna að ég hafi ekkert endilega verið kosinn maður ársins á Grenimel 41. Hvort ég sé ekki til í að skrúfa eins og eina til tvær perur í ljósin á heimilinu og sleppa eins og einu viðtali í staðinn,“ segir Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir í viðtali sem birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina en Tómas vakti aðdáun landsmanna fyrir frækið björgunarstarf á spítalanum á síðasta ári og flestir kveikja þegar hann er nefndur því nafni sem hann situr líklega uppi með; LæknaTómas.

Myndband sem sýndi snör viðbrögð hjarta- og lungnaskurðlæknisins og fleiri lækna síðastliðið haust, þar sem manni sem stunginn hafði verið í hjartað var bjargað, rúllaði um internetið og um áramótin var Tómas valinn maður ársins á Rás 2.

Í viðtalinu ræðir Tómas hins vegar hin ótal mörgu önnur hugðarefni sín en starfið en hann hefur meðal annars verið ötull í gera veg djasstónlistar sem mestan og sjálfur staðið fyrir tónleikum og vinnur nú að því að fá einn þekktasta djasspíanista Svía hingað til lands. Tómas er þá ákafar náttúruverndarsinni og er í stjórn Ferðafélags Íslands. Læknirinn er einnig í forsvari fyrir Félagsskap íslenskra fjallalækna; FÍFL, hann er formaður Skvassfélags Íslands og er búinn að aðstoða íslenska kvikmyndaleikstjóra svo sem Dag Kára Pétursson og Baltasar Kormák í handritaskrifum þar sem læknisfræðileg atriði koma við sögu. Í nýjustu mynd Baltasars, Eiðurinn, er aðalpersónan læknir og Tómas hefur gefið leikstjóranum góð ráð.

Þess má geta að Baltasar og Tómas eiga samstarf á fleiri sviðum en á sunnudaginn, kl. 19.30 í Eldborgarsal Hörpu, mun hinn heimsþekkti fjallgöngumaður David Breashears mæta og halda tölu á Háfjallakvöldi sem Félag íslenskra fjallalækna, FíFL, Ferðafélags Íslands og 66°Norður standa að en Breashears hefur verið ráðgjafi Baltasars í kvikmynd hans Everest sem frumsýnd verður síðar á þessu ári og mun Baltasar einnig halda tölu á sunnudaginn um upplifun sína af slysinu í gegnum gerð kvikmyndarinnar.

Breashears var staddur á Everest vorið 1996 þegar átta fjallgöngumenn létu lífið í stormi á tindinum en næsta kvikmynd Baltasars í Hollywood fjallar einmitt um þennan atburð. Breashears varð líka fyrstur til að taka kvikmynd á toppi Everest árið 1983 og hefur komið að gerð kvikmynda á borð við Seven years in Tibet og Cliffhanger. 

Í viðtalinu segir Tómas frá því að hann sem krakki hafi verið kallaður Tómt-mas, og sé enginn OfurTómas þrátt fyrir að virðast eiga óteljandi klukkustundir í sólarhringnum.

„Á skurðstofunni segja hjúkrunarfræðingarnir stundum við mig að ég tali nú svolítið mikið og ég skeri hraðar þegar ég tali minna en ég hef bara svo gaman af fólki og finnst gaman að tala. Ég segi það ekki, auðvitað á viðkvæmum augnablikum þegi ég nú, það segir sig sjálft. En vinnan mín er hópvinna og ég gæti þess vegna heitið Teymis-Tómas. Inni á hverri skurðstofu eru kannski 10-20 manns sem koma að aðgerðinni og þar er oft spjallað eins og gengur. Þar er gjarnan samankominn hópur fólks með ólíkan bakgrunn sem hefur frá ýmsu skemmtilegu að segja, hvað það var að gera og er að fara að gera.“

Og LæknaTómasi er ekkert um það gefið að blaðamaður ætli að kalla hann OfurTómas. 

„Nei, það væri því miður engan veginn satt. Mínir vankantar eru þarna óteljandi. Ég get verið afar óþolinmóður og ætlast til of mikils af fólki, en ég held að sé heldur ekki alslæmt til dæmis fyrir nemendur mína sem eru upp til hópa mjög metnaðarfullir. Ég get líka farið í taugarnar á fólki sem finnst ég hreinlega athyglissjúkur en það er svona hin hliðin á þessum teningi – að ég veit að til þess að kynna fyrir fólki mín hjartans mál, svo sem tónlist, fjöll og náttúruvernd, verð ég líka að vera opinn fyrir því að segja frá og gefa af mér. Þetta er sterk þörf í mínu tilviki og ég er til í að leggja töluvert á mig. Ég tek ekki krónu fyrir þetta en þetta brölt veitir mér mikla ánægju.“

Tómas Guðbjartsson.
Tómas Guðbjartsson. Kristinn Ingvarsson
Lestu meira um TúrbóTómas í Sunnudagsblaðinu.
Lestu meira um TúrbóTómas í Sunnudagsblaðinu.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert