Hagfræði og tölvunarfræði góð blanda

Frá Háskóladeginum í fyrra.
Frá Háskóladeginum í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Mörkin á milli viðskiptafræði og tölvunarfræði eru sums staðar farin að mást út. Ákvarðanir sem eru teknar í dag í starfsemi fyrirtækja og stofnana eru að miklu leyti byggðar á gögnum úr kerfum og mikilvægt er að hafa skilning á mikilvægi gagna og hvernig hægt sé að nýta sér þau í ákvarðanatöku.

Eftir að hafa útskrifast með BS gráðu í hagfræði frá háskóla í Bandaríkjunum, fór Herdís Helga Arnalds út á vinnumarkaðinn. Þar gerði hún sér grein fyrir því að störf í viðskiptageiranum eru farin að krefjast frekari tækniþekkingar heldur en hún bjóst við.

„Maður þarf kannski ekkert endilega að kunna að kóða eða forrita en í dag er algjör krafa að vera allavega umræðuhæfur hvort sem það komi að tækniumhverfi, hugbúnaðargerð eða hugbúnaðarþróun,“ segir Herdís Helga í samtali við mbl.is.

Mikilvægt að geta stokkið í hvað sem er

Herdís stundar nú nám í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og rekur jafnframt sitt eigið sprotafyrirtæki. „Tölvunarfræðin er farin að teygja anga sína í svo margt annað en eitthvað afmarkað eins og tölvuleikjagerð eða hefðbundna forritunarvinnu,“ segir Herdís. „Maður tekur sérstaklega eftir því í sprotaheiminum hversu mikilvægt það er að geta stokkið í hvað sem er. Það þarf að geta gert viðskipta- og tekjuáætlun, en líka vera meðvitaður um hugbúnaðarþróunina og tæknina á bakvið lausnina.“

Herdís rekur sprotafyrirtækið Gracipe en það sigraði í frumkvöðlakeppninni Gullegginu á síðasta ári. „Við erum að þróa hugbúnað sem er eins konar textagreinir og breytir mataruppskriftum á skrifuðu formi yfir á myndrænt form til þess að auðveldara sé að skilja þær,“ segir Herdís. 

Mælir með þessari blöndu

Hún segir að tölvunarfræðin henti sér vel og mælir hún með þessari blöndu, hagfræði og tölvunarfræði, fyrir alla þá sem hafa áhuga á að stofna sitt eigið fyrirtæki. Aðspurð hvort að háskólar ættu að fara að huga að því að bjóða upp á eina gráðu sem sameinar þetta tvennt svarar Herdís því játandi.

„Það þarf allavega að þróast frekar í þá átt. Fólk er farið að sjá aukin tengsl þarna á milli en áður. Ég valdi að fara í HR því mér fannst þeim takast svo vel að fella ákveðna grein inn í aðra. Eins og í tölvunarfræðinni getur þú valið þér rosalega breiða línu, allt eftir áhugasviði. Það er mikilvægt að pæla í þessu.“

Hægt er að kynna sér framboð háskólanna á Háskóladeginum sem haldinn verður í dag frá klukkan 12 til 16. Í húsakynnum HÍ verður hægt að kynna sér starf HÍ, HA og Háskólans á Hólum, í HR verður hægt að kynna sé starf HR og Háskólans á Bifröst og í húsnæði Listaháskólans við Laugarnestanga má kynna sér námsleiðis LHÍ. 

Herdís Helga Arnalds
Herdís Helga Arnalds
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert