Víkinganæla skaut upp kollinum

„Það kom einstaklingur með nælu frá víkingatímanum. Sá sem kom með hana gerði sér ekki grein fyrir aldri hennar, en gripurinn er svo gamall að hann verður lögum samkvæmt að skila honum inn. Honum var mjög ljúft að láta hann af hendi,“ segir Ólöf Breiðfjörð kynningarstjóri Þjóðminjasafnsins en í dag var haldinn greiningardagur á safninu. 

Lögum samkvæmt verður að afhenda minjastofnun gripi ef þeir hafa náð tilskildum aldri. Er það gert til þess að hægt sé að varðveita gripina við bestu skilyrði. 

Alls komu um 50 manns með um 100 gripi sem sérfræðingar safnsins greindu og lögðu mat á. Munirnir sem fólkið mætti með voru fjölbreyttir. „Það var silfurstaup sem er nákvæmlega eins og staup sem við höfum þegar til sýningar á safninu. Annars var þetta svolítið meira úrval af gripum heldur en venjulega. Fólk var að koma með postulín og eitthvað var um erlenda gripi. Síðan var ansi fallegur skautbúningur með fullt af silfri. Þá kom einnig einstaklingur með útskorna hillu. Sérfræðingur okkar tók nákvæmar  myndir af hillunni og ætlar að skoða betur. Hún þarf aðeins meira næði til að lesa úr hvað stendur á hillunni,“ segir Ólöf. Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir hefur sérhæft sig í höfðaletri sem skorið var í hilluna og var það hún sem skoðaði hilluna.

Á staðnum var einnig Þór Magnússon, fyrrum þjóðminjavörður. Hann er sérfræðingur í silfurgripum og hefur sérstaklega rannsakað íslenska silfursmíð.

Ólöf segir að greiningardagurinn sé mikilvægt samtal á milli þjóðarinnar og safnsins. „Dagurinn er flottur og það eru mjög ólíkir hlutir sem fólk kemur með með sér. Fólk fær á tilfinninguna að við séum þarna fyrir það. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert