Arion banki hættir við verðhækkanir

Arion banki.
Arion banki. mbl.is/Kristinn

Arion banki hefur ákveðið að falla frá öllum fyrirhuguðum verðhækkunum á gjaldkeraþjónustu sem taka áttu gildi 1. mars. Eins hefur bankinn ákveðið að hækka ekki verð á þjónustu við viðskiptavini það sem eftir lifir árs. Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn hefur sent til viðskiptavina sinna.

„Við höfum fengið margar ábendingar frá viðskiptavinum okkar undanfarnar vikur í tengslum við verðskrá bankans. Við höfum hlustað á þær ábendingar og ákveðið að hækka ekki verð á þjónustu við okkar viðskiptavini út þetta ár. Við verðum þó að setja þann fyrirvara að ytri áhrifaþættir, eins og t.d. breytingar á skatti, gætu leitt til verðbreytinga.

Í verðskrá bankans voru boðaðar verðhækkanir á gjaldkeraþjónustu sem áttu að taka gildi 1. mars. Við höfum nú endurskoðað þær hækkanir og ákveðið að falla frá þeim.

Við munum hins vegar ekki falla frá nýju afgreiðslugjaldi sem snýr fyrst og fremst að viðskiptavinum annarra banka og mun skila sér í betri bankaþjónustu við viðskiptavini okkar. Þetta er gjald vegna innborgana reiðufjár og úttekta reiðufjár af reikningum í öðrum bönkum. Við viljum benda sérstaklega á að þeir sem eru 67 ára og eldri, eða yngri en 18 ára, greiða ekki fyrir almenna gjaldkeraþjónustu í útibúum okkar og það sama mun gilda um þetta gjald.

Við leggjum áherslu á að þú getir valið þá þjónustuleið sem þér hentar best. Þú ert alltaf velkomin(n) í útibú okkar en þú getur einnig sinnt þínum daglegu fjármálum í Arion hraðþjónustunni þér að kostnaðarlausu. Þar getur þú valið á milli Arion appsins, netbankans og hraðbankanna. Við erum þessa dagana að vinna að einfaldari og skýrari framsetningu verðskrárinnar. Hér má sjá yfirlit yfir verð á nokkrum algengum þjónustuþáttum,“ segir í tilkynningunni sem Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, ritar undir.

Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arionbanka.
Höskuldur H. Ólafsson bankastjóri Arionbanka. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert