Marar í kafi við slippinn

Ljósmynd/Ómar Bogason

Gamall „smyglbátur“ sökk til hálfs á Seyðisfirði í dag, en hann lá við bryggju við slippinn. Björgunarsveitarmönnum úr björgunarsveitinni Ísólfi tókst að bjarga öðrum bát sem bundinn var við þann sem sökk.

Að sögn Guðjóns Más Jónssonar björgunarsveitarmanns virðist sem leki hafi komið að bátnum, en hann uppgötvaðist ekki fyrr en í hádeginu í dag, þegar stór hluti bátsins var kominn undir vatn.

Guðjón segir að báturinn hafi lengi legið ónotaður við bryggjuna, en sagan segi að hann hafi á sínum tíma flutt smygl til landsins.

Báturinn marar enn í kafi við slippinn og er Guðjóni ekki kunnugt um hvert framhaldið verður. Aðspurður segist hann ekki hafa orðið var við að olía leki frá bátnum.

Austurfrétt sagði frá málinu fyrr í dag.

Ljósmynd/Ómar Bogason
Ljósmynd/Ómar Bogason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert