Virða lífsstíl villikattanna

Púkarófa hefur látið gott af sér leiða.
Púkarófa hefur látið gott af sér leiða. Ljósmynd/María Þorvarðardóttir

Í hrauninu í Hafnarfirði hefur þróast sérstakt kyn villikatta sem að sögn kunnugra má þekkja af fádæma fegurð, skynsemi og þrautseigju. Hópur dýravina í Hafnarfirði hefur tekið þá upp á arma sína, býr þeim skjólhýsi, gefur þeim mat, hefur með þeim eftirlit og lætur gelda unga ketti.

Þá hafa fjölmargir kettlingar úr hópi villikatta fengið kærleiksrík heimili fyrir tilstuðlan þessa hóps dýravina sem nú hafa stofnað styrktarsjóð hafnfirskra villikatta undir heitinu Óskasjóður Púkarófu. Áhugasamir geta kynnt sér starfsemina á facebooksíðu sjóðsins.

Sjóðurinn er kenndur við villilæðuna Púkarófu, fagra og tignarlega veiðikló með gulgræn augu.

Prjóna á kisurnar

„Ég sá hana fyrst á Hvaleyrinni í Hafnarfirði fyrir um fjórum árum,“ segir María Þorvarðardóttir, formaður sjóðsins, um fyrstu kynni sín af Púkarófu. María leigði atvinnuhúsnæði á þessum slóðum og fór að spyrjast fyrir um köttinn sem hún sá svo oft í grenndinni. „Trillukarlarnir höfðu fylgst með henni vaxa úr grasi, þeir sögðu mér að hún væri 9-10 ára og hefði alla tíð haldið til þarna. Hún er svo heillandi og kom þessu af stað.“

Fyrir það fé sem safnast á vegum Óskasjóðs Púkarófu er hlúð að villiköttum í Hafnarfirði. María og félagar hennar hafa undanfarnar vikur byggt kisuskjól úr plasttunnum og kössum og einangrað þau með teppum og frauðplasti. Kisurnar eiga marga vildarvini sem prjóna handa þeim teppi í mestu vetrarkuldunum og þeim er gefið daglega á sex eða sjö stöðum í Hafnarfirði. María segir alla tíð hafa verið talsvert um villiketti í bænum. „Það eru góðar aðstæður fyrir þá í hrauninu og í gegnum tíðina hefur orðið til sérstakt kyn, sem er einstakt: fallegt, skynsamt og sterkt.“

Það þarf að semja við villiköttinn

Óskasjóður Púkarófu heyrir undir Dýraverndunarfélag Hafnfirðinga, sem var stofnað árið 1928 undir kjörorðinu „Allir jafnir“ og var þar átt við að gæta þyrfti að réttindum dýra. Starfsemi félagsins lá í dvala um hríð, en var endurvakin fyrir skömmu og er María þar formaður.

Hún segir mikla hugarfarsbreytingu hafa orðið í dýravernd á Íslandi, ekki síst hvað varðar villiketti. „Áður var litið á þá sem hálfgerð meindýr. En þeir eru einfaldlega stórkostlegir þegar maður nær að venja þá. Þetta er allt annað dýr en heimiliskötturinn og það þarf að semja við villiköttinn. Það þýðir ekki að reyna að ráðskast með svona dýr sem hefur lifað af við erfiðar aðstæður. Þetta eru svo sterkir einstaklingar. Ef þeir meiða sig eða slasa lækna þeir sig sjálfir. Svo halda þeir strandlengjunni í Hafnarfirði lausri við mýs og rottur.“

María segir talsverðan mun vera á villiköttum og vergangsköttum. Þeir síðarnefndu séu heimiliskettir sem hafi verið skildir eftir eða týnst. Þeir leiti gjarnan til villikatta, en fari oft illa út úr þeim samskiptum. „Þeir hafa ekki sömu eiginleika og villikettirnir, sem vilja frekar búa úti í frelsinu en inni með manninum. Þeir eru hálfgerðir sígaunar, við erum ekki að reyna að breyta því. Við virðum lífsstíl villikattanna.“

Facebooksíða Óskasjóðs Púkarófu.

María með Indjánafjöður, sem er einn fjölmargra kettlinga Púkarófu.
María með Indjánafjöður, sem er einn fjölmargra kettlinga Púkarófu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Hvaleyrarhöfðinginn er einn fjölmargra hafnfirskra villikatta.
Hvaleyrarhöfðinginn er einn fjölmargra hafnfirskra villikatta. Ljósmynd/María Þorvarðardóttir
Kisa í kassa. Aðstandendur Óskasjóðs Púkarófu hafa útbúið kisuskjól úr …
Kisa í kassa. Aðstandendur Óskasjóðs Púkarófu hafa útbúið kisuskjól úr plastkössum. Ljósmynd/María Þorvarðardóttir
Hafnfirskir villikettir.
Hafnfirskir villikettir. Ljósmynd/María Þorvarðardóttir
Grár og glæstur högni úr hópi hafnfirskra villikatta.
Grár og glæstur högni úr hópi hafnfirskra villikatta. Ljósmynd/María Þorvarðardóttir
Fyrir tilstuðlan Óskasjóðs Púkarófu fá villikisurnar í Hafnarfirði mat á …
Fyrir tilstuðlan Óskasjóðs Púkarófu fá villikisurnar í Hafnarfirði mat á hverjum degi. Ljósmynd/María Þorvarðardóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert