Búið að loka Hellisheiði

Hellisheiði er lokuð.
Hellisheiði er lokuð. Styrmir Kári

Snjóþekja, skafrenningur og hvassviðri er á Sandskeiði og í Þrengslum en lokað er um Hellisheiði. Mjög slæmt ferðaveður er víða og liggur allt innanlandsflug niðri. 

Enn er það veðrið sem er að gera okkur grikk. Skv.öllum upplýsingum er ekkert ferðaveður þessa stundina. Við ítrekum að fólk kanni vel með færð ef leggja á af stað í ferðalag en haldi sig annars innandyra,“ segir í skilaboðum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.

Það er suðaustan 15-23 m/s með slyddu eða rigningu, en snjókomu til fjalla, hvassast við S-ströndina. Sunnan 10-18 með skúrum eða éljum um hádegi, fyrst SV-til, en 8-15 undir kvöld og styttir upp NA-til í kvöld. Sunnan og suðvestan 8-15 á morgun, en NA 5-13 allra NV-ast í fyrramálið. Él, en þurrt NA- og A-lands. Hiti 0 til 5 stig, en víða vægt frost inn til landsins. Það dregur úr vindi og úrkomu um hádegi, fyrst SV-til, en um landið NA-vert undir kvöld.

Hálka er á Mosfellsheiði en annars er hálka eða hálkublettir mjög víða á Suðurlandi og mikið hvassviðri eins og undir Eyjafjöllum. Mikið hvassviðri er á Suðurnesjum, Reykjanesbraut og við Kjalarnes en auðir vegir.

Á Vesturlandi eru hálkublettir á flestum leiðum en snjóþekja og skafrenningur á Bröttubrekku og snjóþekja á Holtavörðuheiði og snjóþekja á Svínadal. Hálka og óveður er á Vatnaleið og Fróðárheiði. Hvassviðri er við Hafnarfjall en auður vegur.

Hálka eða snjóþekja er víða á Vestfjörðum og skafrenningur á fjallvegum. Þæfingsfærð er á Klettshálsi en verið er að hreinsa. Ófært og óveður er á Hálfdán, Mikladal og Kleifaheiði.

Á Norðurlandi vestra er hálka eða snjóþekja. Hálkublettir og skafrenningur á Vatnsskarði en snjóþekja á Öxnadalsheiði. Hálka eða hálkublettir eru á Norðurlandi eystra en ófært er á Hólasandi og á Dettifossvegi.

Það er hálka eða hálkublettir og sumstaðar éljagangur og skafrenningur á vegum á Austurlandi en greiðfært frá Fáskrúðsfirði og með suðausturströndinni að Öræfasveit en þar taka við hálkublettir eða hálka. Mikið hvassviðri er á Mýrdalssandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert