Brjóstasafnið breytir ekki baráttu

Fjöldi nemenda við Verslunarskóla Íslands tóku þátt í #FreeTheNipple deginum …
Fjöldi nemenda við Verslunarskóla Íslands tóku þátt í #FreeTheNipple deginum í dag. mbl.is/Eggert

„Þetta er eitthvað sem maður gat búist við að myndi gerast þar sem þetta er ekki normið,“ segir Bóel Sigríður Guðbrandsdóttir, formaður Femínistafélags Verslunarskóla Íslands, við blaðamann mbl.is þegar hann sagði henni að notandi deiliskráarsíðunnar deildu.net hafi sett inn á síðuna myndasafn af brjóstamyndum sem birtust á samfélagsmiðlinum Twitter í tengslum við #FreeTheNipple byltinguna sem reið yfir landið í gær og í dag.

Safnið sem notandi deiliskráarsíðunnar setti inn.
Safnið sem notandi deiliskráarsíðunnar setti inn. Skjáskot af deildu.net

Notandinn „inkaze“ setti inn myndasafnið sem hann kallar „FreeTheNipple (safnið mitt sem komið er)“ og hafa samtals um 170 notendur sótt myndasafnið.

„Maður getur búist við því að einhverjir ómerkilegir aðilar fari að deila þessu og gera eitthvað kynferðislegt úr því að konur hafi ákveðið að birta mynd af brjóstunum sínum,“ segir Bóel og bætir við að þetta hafi ekki áhrif á byltinguna.

„Við gerðum þetta allar konurnar og þetta breytir ekki baráttunni. Við gerðum þetta af fúsum og frjálsum vilja og erum ennþá að berjast fyrir jafnrétti. Þetta sýnir bara hvað það er mikil og brýn þörf á því að halda áfram að berjast,“ segir Bóel sem var í skýjunum með daginn. 

„Ég er enn að reyna að átta mig á þessu,“ sagði hún glöð þrátt fyrir uppátæki netverjans.

Bóel Sigríður Guðbrandsdóttir ásamt samnemendum sínum. Hún er fyrir miðju.
Bóel Sigríður Guðbrandsdóttir ásamt samnemendum sínum. Hún er fyrir miðju. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert