Kanna persónuleika við ráðningu

Flugmenn Icelandair fara í gegnum alhliða mat við ráðningu þar …
Flugmenn Icelandair fara í gegnum alhliða mat við ráðningu þar sem persónuleiki þeirra er meðal þess sem er kannaður. mbl.is/Skapti

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir flugmenn fara í gegnum alhliða mat við ráðningu, þar sem persónuleiki viðkomandi er kannaður.

„Þegar flugmenn eru komnir til starfa fara þeir í gegnum hæfnipróf tvisvar á ári og eftirlitsflug einu sinni á ári og komi upp einhverjar vangaveltur um heilsufar af hvaða toga sem það er leitum við til okkar trúnaðarlæknis,“ segir hann en bætir við að það séu flugmennirnir sem hafa frumkvæði að því að láta vita af veikindum sínum.

„Það er þó að sjálfsögðu þannig að flugmenn hafa frumkvæði að því að láta vita af veikindum sínum, hvaða veikindi sem um er að ræða, og við vísum til trúnaðarlæknis og annarra sérfræðilækna eftir því sem við á,“ segir Guðjón.

Tveir úr áhöfn í stjórnklefanum á flugi

Líkt og greint var frá á mbl.is í gær hefur Icelandair ákveðið að breyta hjá sér öryggisreglum þannig að nú eru alltaf tveir áhafnarmeðlimir í flugstjórnarklefanum á meðan flugvélar flugfélagsins eru í háaloftunum. Sagði Guðjón að í ljósi frétta af hugsanlegum ástæðum flugsslyssins í Frakklandi hefur Icelandair ákveðið að taka upp þá vinnureglu að aldrei séu færri en tveir úr áhöfn í flugstjórnarklefanum. 

Samkvæmt heimildum mbl.is gætir nokkurrar óánægju meðal flugmanna Icelandair um nýju vinnureglurnar. Guðjón Arngrímsson, kaus að tjá sig ekki um málið þegar blaðamaður mbl.is bar það undir hann.

Í dag, gaf Flugöryggisstofnun Evrópu út tilmæli til allra evrópskra flugfélaga um að taka upp sama verklag og Icelandair innleiddi í gær, að aldrei skuli vera færri en tveir áhafnarmeðlimir í flugstjórnarklefanum á meðan flugvélar eru á flugi.

Samkvæmt heimildum mbl.is höfðu mörg flugfélög reglu um tvo einstaklinga í stjórnklefa áður en flugslysið varð í frönsku Ölpunum. Reglurnar kveða á, í meginatriðum, um að aldrei skuli einn einstaklingur vera í stjórnklefa og að ekki megi vera einn einstaklingur í stjórnklefa ef myndavél, sem sýnir hver óskar inngöngu er biluð. 

Flugfélög víðs vegar um heim hafa breytt reglunni á síðustu þremur sólahringum, eða eru að íhuga það. Flugfélög sem staðfestar upplýsingar liggja fyrir um breytingu í þá átt að aldrei skuli vera einn í stjórnklefa eru Air Canada, Air Transat, easyJet, Germanwings, Icelandair, Lufthansa, Norwegian, Qantas, Swiss, Thomas Cook, Turkish, Air Berlin, TuiFly og Virgin Atlantic. 

Þá voru fjölmörg flugfélög með þessa vinnureglu hjá sér áður en slysið í frönsku Ölpunum varð, þar á meðal öll stóru bandarísku flugfélögin.

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. mbl.is/Styrmir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert