Strætó appið app ársins

Sigurður Bogi Sævarsson

Strætó appið var valið app ársins á Nexpo verðlaununum sem haldin voru í Bíó Paradís í kvöld. Þetta eru önnur verðlaun sem appið hlýtur á þessu ári en það hlaut einnig Íslensku vefverðlaunin í janúar síðastliðnum. 

 Í tilkynningu frá Strætó segir að notendum appsins fjölgi með hverjum deginum en þeir eru nú hátt í 40.000 talsins. Sala í gegnum appið hefur sömuleiðis stigið hratt og svarar hún nú til um 5 prósent af heildarsölu og þriðjungs af allri staðgreiðslusölu fargjalda hjá Strætó.

Daði Ingólfsson, yfirmaður upplýsingatæknimála segir Strætó vera í skýjunum yfir að hafa hlotið verðlaunin.

„Okkar markmið er að halda áfram að hlusta á þarfir viðskiptavina okkar og þróa appið eftir því. Meðal þess sem koma skal í appinu á næstu mánuðum eru tímabilskort, en á næsta ári er á dagskrá að bæta við snjallmiðum fyrir landsbyggðina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert