Furðar sig á stefnubreytingunni

Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar.
Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar. Styrmir Kári

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður atvinnuveganefndar Alþingis, segir útilokað fyrir Ísland að hætta við olíuleit á Drekasvæðinu. Það myndi kosta ríkið háar fjárhæðir að rifta þeim samningum sem nú eru í gildi.

Í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun furðaði hann sig jafnframt á stefnubreytingu Samfylkingarinnar í málaflokknum.

Eins og kunnugt er samþykkti landsfundur Samfylkingarinnar um seinustu helgi ályktun þess efnis að hætti bæri leit að olíu á Drekasvæðinu. Í ályktuninni sagði að mistök hefðu verið gerð þegar leit var hleypt af stað á svæðinu. Þú þyrfti að vinda ofan af þeirri leit og vinnsluáformum og lýsa því yfir að Íslendingar hyggist ekki nýta hugsanlega jarðefnaorkukosti í lögsögu sinni.

Jón sagði að stefna hefði verið mörkuð á síðasta kjörtímabili undir forystu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Gengið hefði verið til útboða og samningar gerðir við nokkur fyrirtæki og því væri ekki hægt að ganga frá borðinu núna. „Ég veit ekki hvort þetta er einhver vinsældayfirlýsing,“ sagði Jón.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í þættinum að með þessari ákvörðun væri Samfylkingin að taka ábyrga afstöðu. „Það að marka þessa stefnu sýnir aukna meðvitund almennings um það að við verðum að taka ábyrga afstöðu og bregðast við,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert