Íslensk hönnun á tískupallana í París

Thelma Björnsdóttir sigraði á dögunum franska fatahönnuðakeppni.
Thelma Björnsdóttir sigraði á dögunum franska fatahönnuðakeppni. ljósmynd/Elísabet Erlendsdóttir

„Þetta er draumur að rætast,“ segir íslenski fatahönnuðurinn Thelma Björnsdóttir sem á dögunum vann franska fatahönnuðakeppni og ávann sér um leið rétt til að taka þátt í Pulp-tískuvikunni í París. Um er að ræða yfirstærðartískuviðburð á borð við Full Figured-tískuvikuna í New York.

Pulp-tískuvikan fer fram dagana 11. og 12. apríl næstkomandi, og er haldin til að vekja athygli á yfirstærðarmarkaðnum í Frakklandi. Thelma mun sýna útskriftarlínuna sína, en hún útskrifaðist úr framhaldsnámi frá International Fashion Academy í janúar sl. Áður hafði hún klárað BA-gráðu í fatahönnun frá sama skóla og hlotið styrk til áframhaldandi náms.

Leggur áherslu á líkamsvirðingu

„Þegar ég gerði útskriftarverkefnið mitt stofnaði ég mitt eigið merki sem leggur áherslu á líkamsvirðingu,“ segir Thelma og útskýrir að með þessu vilji hún breyta stöðluðum stærðum og hanna föt á allar gerðir líkama. Línan sem hún kemur til með að sýna á tískuvikunni inniheldur tólf lúkk í stærð 18. 

„Það sem ég er að reyna að gera er að koma með meiri hönnun og listræna tjáningu inn í „plus size“-heiminn. Það er nógu mikið framboð af þessu venjulega en mér fannst vanta þetta „edgy“ og öðruvísi lúkk,“ segir Thelma.

Opnar nýjar dyr fyrir konur í yfirstærð

Hún segir yfirstærðarmarkaðinn mjög stóran, en hann hafi verið hunsaður of lengi. „Það er verið að sleppa stórum hluta kvenna úr tískuheiminum þótt þær hafi alveg jafnmikinn, ef ekki meiri, áhuga á tísku. Það hefur hingað til ekki verið mikið hugsað um gæðin og þann möguleika að nota föt sem tjáningu fyrir þennan hóp, heldur hefur þetta aðeins verið eitthvað til að klæða líkamann.“

Thelma er sjálf í yfirstærð og segist þekkja það af eigin reynslu að hafa ekki möguleikana sem hún myndi óska sér þegar kemur að fatavali. „Aðaldrifkrafturinn minn í þessu verkefni var það sem ég var sjálf búin að finna fyrir. Ég vann einnig rannsóknarvinnu fyrir verkefnið þar sem ég tók viðtöl við bloggara í yfirstærð og það var einróma skoðun þeirra að þær væru „annars flokks“ í tískuheiminum og þeim fannst þær ekki eiga rétt á þessari tjáningu með tísku því flíkurnar eru ekki í boði.“

Finnur fyrir ákveðinni vitundarvakningu

Hún segir þetta hafa gríðarleg áhrif á sjálfsmynd kvenna, sem eigi ekki að þurfa að sætta sig við að ákveðin föt fáist aðeins í tiltekinni stærð. „Ef konunni sjálfri líður vel í einhverju þá er maður ekkert að pæla í því hvort hún sé í röndum sem eiga ekki að fara hennar líkamsformi,“ útskýrir hún.

Thelma segir tískubransann þó sem betur fer vera að breytast til betri vegar. „Ég finn fyrir ákveðinni vitundarvakningu og fólk hér í Frakklandi virðist loksins vera að vakna.“ Þá segir hún fólk loks vera að átta sig á því að fólk sé mismunandi og því sé mikilvægt að fagna fjölbreytileikanum.

Ekki á leiðinni aftur heim

Loks segist Thelma spennt fyrir komandi tímum, og nú taki við undirbúningur fyrir Pulp-tískuvikuna. „Ég er hrikalega ánægð. Þetta er mjög gott tækifæri til að koma sér á framfæri og ég mun reyna að nýta það,“ segir hún.

En liggur leiðin aftur til Íslands í bráð? „Nei, ég stefni að því að vera hér áfram og sjá hvernig þetta spilast. Ég vona að þessi viðburður muni hrinda einhverju af stað og það fari að opnast einhverjar dyr. Draumurinn er að stofna mitt eigið fyrirtæki,“ segir Thelma að lokum.

Thelma segir vöntun hafa verið á hátískuklæðnaði fyrir konur í …
Thelma segir vöntun hafa verið á hátískuklæðnaði fyrir konur í yfirþyngd. ljósmynd/Fabrice Malard
Merki Thelmu leggur áherslu á líkamsvirðingu.
Merki Thelmu leggur áherslu á líkamsvirðingu. ljósmynd/Fabrice Malard
Lína Thelmu verður sýnd á Pulp tískuvikunni í París.
Lína Thelmu verður sýnd á Pulp tískuvikunni í París. ljósmynd/Fabrice Malard
ljósmynd/Fabrice Malard
ljósmynd/Fabrice Malard
ljósmynd/Fabrice Malard
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert