Kertum fleytt í minningu Farkhundu

Var kertum fleytt í minningu Farkhundu í lok athafnarinnar.
Var kertum fleytt í minningu Farkhundu í lok athafnarinnar. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hópur fólks safnaðist saman í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag til þess að minnast Farkhundu, 27 ára gamals kennaranema, sem var myrt á hrottalegan hátt af stórum hópi manna í Kabúl í Afganistan þann 19. mars síðastliðinn. Var jafnframt kertum fleytt í minningu Farkhundu í lok athafnarinnar. 

Er morðið á Farkhundu rakið til þess að múlla einn laug upp á hana að hún hefði brennt Kóraninn. Samkvæmt tilkynningu frá skipuleggjendum viðburðarins í dag laug múllann þessu vegna þess að Farkhunda, sem nam trúarleg fræði í íslömskum skóla, hafði sakað hann um að brjóta lög íslams með því að selja lítil bréfsnifsi með trúarlegum textum ("tawiz") undir því yfirskini að textarnir væru kraftmikill galdraseiður.

Hópur manna safnaðist í kringum Farkhundu við hróp múllans og barði hana til dauða með spýtum og steinum, dróg síðan lík hennar að árbakka, brenndi það og henti síðar í Kabúl-ána.

Morðið á Farkhundu hefur vakið sterk viðbrögð í Afganistan og um allan heim. Í Kabúl brugðu konur á það ráð að bera kistu Farkhundu til grafar og neita karlmönnum um að snerta hana þvert á hefðir Afgana sem leyfa konum að jafnaði ekki að taka þátt í jarðarförum. Á þriðjudaginn var gengu þúsundir saman í Kabúl til þess að krefjast réttlætis fyrir Farkhundu. Minningarathafnir og kröfugöngur hafa einnig verið farnar víðs vegar annars staðar í heiminum undir yfirskriftinni Justice for Farkhunda.

Notendur Facebook og Twitter hafa birt greinar og myndir og skipulagt viðburði henni til heiðurs undir kassamerkinu #JusticeForFarkhunda.

Samkvæmt tilkynningu var minningarathöfnin í Ráðhúsinu í dag liður í þessari alþjóðlegu hreyfingu. Þar var undirskriftalisti þar sem gestir gátu undirritað til þess að hvetja afgönsk stjórnvöld til þess að taka harðar á ofbeldi gegn konum í Afganistan og tryggja réttlæti fyrir Farkhundu. 

Í síðustu viku var Farkhundu minnst í Hljómskálagarðinum en var minningarstundin skipulögð af af­gönskum kon­um á Íslandi. Í samtali við mbl.is sagði Fatima Hossaini að tilfelli Farkhundu væri ekki einstætt tilvik. „Sag­an mun end­ur­taka sig og við mun­um þurfa að kveðja aðra Fark­hundu, og enn fleiri til viðbót­ar,“ sagði Fatima. Sagði hún einnig að öfga­hóp­ar í Af­gan­ist­an yrðu sí­fellt öfga­fyllri á sama tíma og stjórn­völd yrðu frjáls­lynd­ari. Staðan í land­inu væri því önn­ur en t.d. í ná­granna­rík­inu Íran þar sem al­menn­ing­ur yrði stöðugt frjáls­lynd­ari á sama tíma og stjórn­völd eru íhalds­söm.

Fyrri fréttir mbl.is:

Tekin af lífi án dóms og laga

Báru hana sjálfar og jarðsettu

Farkhunda er víðar en í Kabúl

Fatima Hussini flutti erindi í Ráðhúsinu í dag.
Fatima Hussini flutti erindi í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Hópur fólks safnaðist saman til þess að minnast Farkhunda sem …
Hópur fólks safnaðist saman til þess að minnast Farkhunda sem tekin var af lífi af múgi í Kabúl í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert