Ófyrirsjáanlegar afleiðingar

Björgólfur Jóhannsson, formaður SA.
Björgólfur Jóhannsson, formaður SA. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Verði gengið að kröfum verkalýðsfélaga um launahækkanir upp á tugi prósenta, verða afleiðingarnar mikil verðbólga, hærri vextir og skuldaaukning heimila og fyrirtækja. Þetta kemur fram í leiðara formanns Samtaka atvinnulífsins í fréttabréfinu Af vettvangi.

Björgólfur Jóhannsson segir að lífskjarabatinn muni láta standa á sér, störfum muni fækka og hagur fyrirtækja og hins opinbera versna.

„Fjárfestingar verða minni en ella og draga mun úr nýsköpun og vöruþróun. Lítil fyrirtæki munu líða sérstaklega. Engin leið er að sjá fyrir endann á atburðarás sem felst í gengislækkunum, verðbólgukúfum og óstöðugleika í kjölfarið.

Hagur starfsfólks og fyrirtækja fer saman og það er allra hagur að kaupmáttur sé sem mestur, verðbólgu sé haldið í skefjum og vextir haldi áfram að lækka,“ segir formaðurinn í leiðaranum.

Björgólfur segir að allir geti verið sammála um að 200 þúsund króna byrjunarlaun séu lág. Þau gildi fyrir þá sem eru nýir á vinnumarkaði, án sérhæfingar og að hefja sinn starfsferil.

„En lægstu laun verða alltaf lág eðli málsins samkvæmt, sama hver talan er, og því er hvorki sanngjarnt né eðlilegt að umræður um launabreytingar í efnahagslífinu öllu fari fram á grundvelli tilfinningalegrar afstöðu til lægstu byrjunarlauna,“ segir hann.

Hann segir SA telja að á Íslandi séu forsendur fyrir efnahagslegum framförum og að tækifæri hafi skapast til nýs samfélagssáttmála þar sem deilur um keisarans skegg séu settar til hliðar.

„Það er hagur allra að hér á landi sé lág verðbólga og efnahagslegur stöðugleiki. Að það ríki samkeppnishæft rekstrarumhverfi sem stuðlar að arðbæru, fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bætir lífskjör allra.

Þess vegna er hvatningin til okkar allra: Gerum betur.“

Leiðarann í heild sinni er að finna á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert