Öryggisbelti í strætó innanbæjar

Lagt er til að öryggisbelti verði sett í alla innanbæjarvagna …
Lagt er til að öryggisbelti verði sett í alla innanbæjarvagna Strætó. mbl.is/Styrmir Kári

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur afgreitt erindi þar sem lagt er til að sett séu öryggisbelti í alla innanbæjarvagna Strætó. Tillagan kom í gegnum íbúavefinn Betri Reykjavík og var lögð fram sem efsta tillaga vefsins í febrúarmánuði í flokki umhverfismála.

Í tillögunni, sem lögð var fyrir fund ráðsins þann 18. mars, er meðal annars nefnt að farþegar geti stórslasast ef vagnar lenda í árekstri og að komið hafi fyrir að leikskólabörn hafi kippst úr sætum, líkt og raunin varð fyrr í dag þegar strætisvagn nauðhemlaði við umferðarljós og fjögur börn slösuðust.

Við afgreiðslu tillögunnar var lögð fram umsögn umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar þar sem skorað er á Strætó að setja öryggisbelti í alla innanbæjarvagna. „Tækifæri sé fyrir Reykjavíkurborg að vera brautryðjandi, en ekki tíðkast að setja belti í innanbæjarvagna í öðrum löndum,“ segir meðal annars í umsögninni. Segir þar einnig að málið sé áhugavert og því beint til stjórnar Strætó bs. að skoða það nánar.

Kristín Soffía Jónsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingar á sæti í umhverfis- og skipulagsráði borgarinnar og einnig í stjórn Strætó. Í samtali við mbl.is segir Kristín að stjórn Strætó hafi ekki enn tekið málið fyrir en að það sé fyrirhugað. Hvorki Bryndís Haraldsdóttir, stjórnarformaður Strætó, né Jóhannes S. Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, höfðu heyrt tillögunnar getið þegar blaðamaður mbl.is hafði samband.

Sjá frétt mbl.is: Fjögur börn slösuðust í strætisvagni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert