Skeit í vasa lögreglumanns

Gæsin skeit í hliðarvasa á buxum lögreglumannsins.
Gæsin skeit í hliðarvasa á buxum lögreglumannsins. ljósmynd/Linda Björk Ragnarsdóttir

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk á dögunum aðstoðarbeiðni þar sem tvífættur vegfarandi hafði lent í vanda nálægt lögreglustöðinni í Hafnarfirði. Um var að ræða gæs sem var illa áttuð og hafði greinilega ruglast í umferðarreglunum.

Þessu segir lögreglan frá á Facebook-síðu sinni, og lýsir því að henni hafi verið snarlega kippt upp og farið með hana inn á lögreglustöðina. Á leiðinni þangað hafi hún þó verið ósátt við meðferðina og launað lífsbjörgina með því að skíta beint ofan í hliðarvasa á buxum lögreglumannsins.

„Var því afráðið að setja gæsina í plastbox, en þess þó gætt að loftgöt væru á boxinu. Að þessu loknu var gæsinni ekið með viðhöfn að bæjarlæknum þar sem henni var sleppt,“ segir á síðunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert