Verkföll hefjast á miðnætti

Frá samstöðufundi með BHM. Fjögur félög innan sambandsins hefja verkföll …
Frá samstöðufundi með BHM. Fjögur félög innan sambandsins hefja verkföll á miðnætti. mbl.is/Golli

Fjögur stéttarfélög innan BHM munu hefja verkfall á miðnætti. Eru það Félag háskólamenntaðra starfsmanna Stjórnarráðsins hjá Fjársýslu ríkisins, Félag íslenskra náttúrufræðinga á Matvælastofnun, Stéttarfélag háskólamanna á matvæla- og næringarsviði á Matvælastofnun og Dýralæknafélag Íslands. Alls munu tæplega 100 félagsmenn leggja niður störf.

Öll félögin fara í ótímabundið verkfall nema háskólamenn hjá Fjársýslu ríkisins sem fara í tímabundið verkfall til 8. maí. 

Verkfall dýralækna mun meðal annars stöðva slátrun spendýra og fiðurfénaðar. Þá stöðvast einnig að mestu innflutningur á dýraafurðum eins og kjöti og ostum og því viðbúið að úrval af ferskri kjötvöru í búðum minnki. Ekki eru þó allir dýralæknar í verkfalli heldur einungis dýralæknar sem starfa á vegum ríkisins. Gæludýraeigendur geta því áfram farið með dýr sín á dýraspítala.

Verkfall Fjársýslunnar getur meðal annars tafið fyrir útborgun barnabóta og vaxtabóta um næstu mánaðamót. Þá verða greiðsluseðlar ekki sendir út og nýjar kröfur t.d. vegna fyrirframgreiðsluskyldu þing- og sveitarsjóðsgjalda, vörugjalds af ökutækjum og greiðslufrests í tolli munu ekki birtast í heimabanka. Þetta hefur hinsvegar enginn áhrif á greiðsluskyldu eða lögboðna gjalddaga og eindaga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert