„Afi minn var vinur Jóns forseta“

Friðrik Kristjánsson húsgagnasmíðameistari á Akureyri og eiginkona hans, Kolfinna Gerður …
Friðrik Kristjánsson húsgagnasmíðameistari á Akureyri og eiginkona hans, Kolfinna Gerður Pálsdóttir. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Einn núlifandi Íslendingur getur með sanni sagt: „Hann afi minn var vinur Jóns Sigurðssonar forseta.“ Hljómar ótrúlega þegar haft er í huga að Jón fæddist fyrir meira en 200 árum og dó 1879. Sá sem um ræðir er Sturla Friðriksson erfðafræðingur, fæddur 1924, og því rúmlega níræður. Faðir hans, Friðrik Jónsson kaupmaður (annar hinna nafnkunnu 'Sturlubræðra') fæddist 1860, sonur Jóns Péturssonar háyfirdómara sem fæddist 1812 og var því aðeins einu ári yngri en Jón forseti. Þeir nafnarnir voru ekki bara samtíðarmenn heldur góðkunningjar, félagar í Kaupmannahöfn um árabil, skrifuðust síðan á eftir að Jón Pétursson fluttist heim og hafa bréfin verið gefin út. Þá sátu þeir saman á Alþingi í nokkur ár. Um Jón Pétursson og Friðrik son hans og þá ætt alla má fræðast í nýlegum æviminningum sem Sturla hefur sent frá sér, Náttúrubarn heitir hún.

„Methafinn“ á Akureyri

Fleiri núlifandi Íslendingar eiga afa eða ömmur sem fædd eru fyrir 200 árum eða meira. „Methafinn“ sem er á lífi er raunar ekki Sturla heldur Friðrik Kristjánsson húsgagnasmiður og fyrrverandi húsvörður á Hrafnagili í Eyjafirði, fæddur 1926. Afi hans, Benjamín Flóventsson, fæddist í febrúar 1808, fyrir 207 árum. Hann var samtímamaður Jónasar Hallgrímssonar skálds og búsettur á sömu slóðum fyrir norðan. Vel má vera að leiðir hans og listaskáldsins góða hafi einhvern tíma legið saman. Þeir gætu líka hafa þekkst. Sonur Benjamíns og faðir Friðriks, Kristján H. Benjamínsson, fæddist 1866.

Sigurlaug Björnsdóttir, sem fædd er 1919, á einnig afa sem var fæddur 1808, í apríl það ár. Það var Eiríkur Jónsson. Sonur hans, faðir Sigurlaugar, var Björn Eiríksson, fæddur 1861.

Afinn talaði latínu

Jónas Ragnarsson, sem heldur úti vefnum Langlífi á Facebook, hefur safnað upplýsingum um núlifandi Íslendinga sem eiga afa og ömmur sem fæddust fyrir tveimur öldum. Hann nefnir til viðbótar við Friðrik, Sigurlaugu og Sturlu, Kjartan Jóhannesson á Húsavík og Björgu Einarsdóttur, rithöfund í Reykjavík. Hann segist ekki útiloka að dæmin séu fleiri, en honum sé ekki kunnugt um það.

Kjartan á Húsavík er fæddur 1925. Amma hans, Rósa Indriðadóttir, fæddist 1814. Sonur hennar, faðir Kjartans, Jóhannes Kristjánsson, fæddist 1854 og dó 1942. Hann var því rúmlega sjötugur þegar sonurinn fæddist.

Björg, sem fædd er 1925, á afa, séra Þorkel Eyjólfsson, sem fæddist 1814. Sonur hans og faðir Bjargar, Einar Þorkelsson, fæddist 1867 og dó 1945. Björg rekur sögu föður síns, afa og fleiri í fjölskyldunni í fróðlegri grein í nýútkomnu Fréttabréfi Ættfræðingafélagsins. Í greininni segir Björg að afi sinn hafi verið mikill latínumaður. Hann hafi kunnað utanbókar latínuskáld fornaldar og haft yfir kveðskap þeirra. Gjarnan hafi hann talað latínu og í því efni búið að því að sumarið 1842 var hann fylgdarmaður fransks greifa, Angles að nafni, sem ferðaðist um Ísland. „Töluðu þeir saman á latínu þar eð Þorkell hafði ekki lært frönsku; haft var eftir honum að flestir prestar, þar sem þeir komu, hafi þá getað bjargað sér með því að tala latínu,“ skrifar Björg.

Átti afa fæddan 1781

Á milli Friðriks Kristjánssonar og afa hans, Benjamíns Flóventssonar, eru sem fyrr segir 207 ár. Þekkt er dæmi um lengra kynslóðabil. María Tryggvadóttir, sem lést vorið 2007, 89 ára gömul, átti afa, merkisklerkinn séra Gunnar Gunnarsson í Laufási, sem fæddur var 1781. Á milli þeirra voru því 226 ár þegar María lést. Faðir Maríu var Tryggvi Gunnarsson, alþingismaður og bankastjóri og einhver mesti framkvæmdamaður hér á landi á seinni tímum. Hann hvílir einn Íslendinga í grafreit í garði Alþingishússins í Reykjavík.

Annan þjóðkunnan mann má nefna í þessu samhengi, Axel heitinn Thorsteinsson fréttamann á Ríkisútvarpinu. Hann var fæddur 1895, sonur þjóðskáldsins Steingríms Thorsteinssonar. Afi Axels og faðir Steingríms, Bjarni Thorsteinsson amtmaður, var fæddur 1781 eins og séra Gunnar. Þegar Axel lést 1984 voru því liðin 203 ár frá því að afi hans fæddist.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert