Finna farfugla í Grafarvogi

Ungmenni kíkir í kíki eftir fallegum ferðalöngum.
Ungmenni kíkir í kíki eftir fallegum ferðalöngum. mbl.is/Kristinn

Jafnt ungir sem aldnir taka nú þátt í fuglaskoðunarferð á vegum Háskóla Íslands í Grafarvog þar sem farfuglarnir safnast saman. Gunnar Þór Hallgrímsson, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, og Tómas Grétar Gunnarsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi, leiða ferðina en þátttakendur hafa bæði sjónauka fuglabækur með í för. Gengið var frá bílastæðinu við Grafarvogskirkju um klukkan 11 en ferðin tekur um tvær klukkustundir í heildina og er farin í samstarfi við Ferðafélag barnanna.

Ferðin er liður í samstarfi Háskóla Íslands og Ferðafélags Íslands um göngu- og hjólaferðir undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“ sem hófst á aldarafmælisári skólans árið 2011. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna háskólans blandast saman í áhugaverðum ferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess. Ferðirnar verða níu talsins á árinu 2015 og tekur hver um tvær klukkustundir. Þátttaka er ókeypis og allir eru velkomnir.

Markmiðið með samstarfinu er að vekja áhuga almennings á fræðslu og hollri útivist og fjölga valkostum í þeim efnum. Um leið er vakin athygli og vonandi áhugi á fjölbreyttri starfsemi háskólans og Ferðafélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert