Mikilvægt að hafa hraðar hendur

Um 1.300 manns eru látnir eftir skjálftann í morgun og …
Um 1.300 manns eru látnir eftir skjálftann í morgun og margir eru slasaðir. AFP

UNICEF hefur hafið neyðaraðgerðir vegna öflugs jarðskjálfta sem reið yfir Katmandu og nágrenni í morgun. Unnið er með stjórnvöldum og samstarfsaðilum á vettvangi og tiltæk neyðargögn nýtt. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá UNICEF

Óttast er að fleiri en eitt þúsund hafi látist í Nepal eftir að harður jarðskjálfti reið yfir og olli gríðarlegri eyðileggingu í höfuðborginni Katmandu og nágrenni hennar.

Fjöldi bygginga hafa jafnast við jörðu, víða er rafmagnslaust og símasamband rofið. Mikilvægt er að bregðast hratt við og tryggja öryggi barna sem nú eiga um sárt að binda. Börn eru hvað mest berskjölduð í hræðilegum aðstæðum sem slíkum.

Neyðargögn þegar tiltæk fyrir fyrstu viðbrögð

UNICEF er á vettvangi og vinnur nú með stjórnvöldum og samstarfsaðilum að því að mæta brýnustu þörfum barna á sviði vatns, hreinlætis, heilsugæslu næringar og verndar. Helstu hjálpargögn til þessara fyrstu aðgerða eru tiltækar á staðnum og gera UNICEF kleift að bregðast svo skjótt við.

„UNICEF hefur starfað á vettvangi í Nepal í meira en 50 ár og mun starfa áfram ötullega í þágu nepalskra barna andspænis þessari áskorun. Mikilvægt er að hafa hraðar hendur til að veita börnum og fjölskyldum þeirra lífsnauðsynlega aðstoð, skjól og vernd í kjölfar þessara hamfara,“ er haft eftir Bergsteini Jónssyni framkvæmdastjóra UNICEF á Íslandi í tilkynningu. 

Um helmingur íbúa Nepal eru börn og er það nú forgangsverkefni UNICEF að tryggja að þeim berist öll sú aðstoð sem nauðsynleg er í kjölfar jarðskjálftans. Aðstæður eru enn óljósar og mun UNICEF á Íslandi veita frekari upplýsingar um leið og staðan skýrist.

UNICEF á Íslandi hefur neyðarsöfnun

UNICEF á Íslandi biðlar til almennings að vera til staðar fyrir börn sem nú eiga um sárt að binda vegna jarðskjálftans. Hægt er að styrkja neyðarsöfnun UNICEF fyrir Nepal með þvi að senda SMSið UNICEF í númerið 1900 og gefa 1500 krónur til neyðaraðgerða vegna jarðskjálftans.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert