Ástfanginn af alheiminum

Sævar Helgi Bragason, stjörnuáhugamaður með meiru, er ástfanginn af alheiminum, …
Sævar Helgi Bragason, stjörnuáhugamaður með meiru, er ástfanginn af alheiminum, að eigin sögn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eftir fárið í kringum sólmyrkvann í mars veit líklega hvert mannsbarn á Íslandi hver Sævar Helgi Bragason, stjörnuáhugamaður, er. Þótt hann sé ungur að árum hefur hann verið óþreytandi við að deila ástríðu sinni fyrir stjörnufræði með landsmönnum um árabil. Sjálfur segist hann ástfanginn af alheiminum.

Varla var hægt að opna samfélagsmiðla eða skoða fjölmiðla án þess að andlit Sævars Helga blasti við í aðdraganda sólmyrkvans sem varð 20. mars. Þá hafði hann og félagar hans í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, þar sem hann er formaður, gefið öllum grunnskólabörnum á Íslandi sérstök sólmyrkvagleraugu til að þau gætu fylgst með þessu magnaða sjónarspili himintunglanna. Atburðurinn fangaði hugi landsmanna og vakti gríðarlega athygli í samfélaginu.

Sólmyrkvinn var þó fjarri því að vera í fyrsta skiptið sem Sævar Helgi hafði birst opinberlega til að leyfa almenningi að dreypa af viskubrunni sínum um alheiminn. Hann hefur meðal annars haldið úti Stjörnufræðivefnum, ítarlegasta safni skrifa um stjarnvísindi á íslensku sem til er, í rúman áratug, gert útvarpsþætti um vísindi og verið fjölmiðlamönnum sem eru misvel að sér í málefnum alheimsins innan handar þegar nýjar uppgötvanir og afrek vinnast í fræðunum.

Horfði meira upp en fram fyrir sig á leið í skólinn

Líkt og Sævar Helgi veltir fyrir sér uppruna og eðli alheimsins sem við búum öll í, spyrja margir sig hvaðan þessi einn öflugasti miðlari vísindanna Íslandi kemur og hvernig þessi brennandi áhugi hans á þeim kom til. 

Sævar Helgi fæddist 17. apríl árið 1984 og er því nýorðinn 31 árs. Hann ólst upp í Hafnarfirði, fyrst í norðurbænum þar sem hann gekk í Engidalsskóla, en um átta ára aldur skipti hann yfir í Setbergsskóla. Hann gekk í Flensborg og byrjaði svo í eðlisfræði í háskólanum en fann snemma að hún ætti ekki nóg vel við hann. Því skipti hann yfir í jarðfræði enda alltaf haft áhuga á reikistjörnujarðfræði og tók hann alla þá kúrsa í stjörnufræði sem hann gat. Núna starfar hann við vísindamiðlun hjá verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands, sinnir ýmsum menntaverkefnum hans, kennir í Vísindasmiðjunni, Háskólalestinni og Háskóla unga fólksins.

Áhuginn á vísindunum kviknaði snemma og virtist hafa verið sjálfsprottinn. Foreldrar hans eru hvorug háskólamenntuð og segir hann að vísindum hafi alls ekki verið haldið að sér í æsku. 

„Ég man eftir mér þegar ég var fjögurra ára í sumarbústað með afa og ömmu
og mömmu og pabba í Brekkuskógi. Þar fór maður stundum á veturna í miklum snjó. Það gerðist annað slagið að það létti til og þá blasti við manni þessi stjörnuhiminn alveg óljósmengaður. Mér fannst hann mjög heillandi og spurði mikið hvað þetta væri og hvað þessi stjarna héti og svona. Það gat enginn svarað mér almennilega. Svo þegar ég var sex ára byrjaði ég í Engidalsskóla og ég gekk í hann á morgnana. Þá horfði ég oft meira upp í himininn en niður á gangstéttina fyrir framan mig af því að mér fannst þetta allt svo heillandi,“ segir Sævar Helgi.

Þegar kom að því að hann átti að velja sér bók til að taka á bókasafninu í skólanum var það því náttúrulegt að fyrsta bókin væri um stjörnur. Ekki var hins vegar mikið framboð af þeim á bókasafninu og bókinni sem Sævar Helgi fann var hann beðinn um að skila aftur því hún væri alltof flókin fyrir sex ára gamlan drenginn.

Um leið og hann hafði tækifæri til byrjaði hann svo að lesa bækur um stjörnufræði og vildi helst ekkert annað en fræðibækur í afmælis- og jólagjafir. Bandaríski stjörnufræðingurinn og vísindamiðlarinn Carl Sagan og Cosmos-þættir og bók hans heilluðu Sævar Helga svo gjörsamlega að þegar hann var níu til tíu ára gamall og nýbyrjaður að læra ensku ætlaði hann að setjast niður og þýða bókina yfir á íslensku, svo mikið langaði hann til að lesa hana.

„Á svipuðum tíma sá ég Satúrnus í fyrsta skipti í gegnum sjónauka hjá frænda mínum. Eftir það var bara ekkert aftur snúið. Það var það flottasta sem ég hafði nokkru sinni séð. Þá var ég alveg ákveðinn í að verða einhvers konar vísindamaður, hvort sem það væri stjörnufræðingur eða eitthvað annað. Þannig að áhuginn byrjaði snemma,“ segir Sævar Helgi.

Kom fyrst fram í sjónvarpinu 16 ára

Samhliða þessum óslökkvandi þekkingarþorsta um alheiminn brann strax sterk þörf innra með Sævari Helga fyrir að deila þessari heillandi veröld sem hann var að kynnast með umheiminum. Sú þörf hefur ekkert slokknað með árunum, þvert á móti raunar.

„Þegar ég sá Satúrnus í fyrsta skipti í sjónauka leið mér þannig að þetta væri svo flott að allir þyrftu að sjá þetta. Carl Sagan, sem er kannski fyrirmynd manns í lífinu að miklu leyti, orðaði þetta þannig að þegar maður er ástfanginn þá vill maður segja öllum heiminum frá því. Ég held að ég sé svolítið þannig: ástfanginn af alheiminum og langi til að segja öllum frá því,“ segir hann og brosir.

Fyrsta skiptið sem Sævar Helgi kom opinberlega fram til að ræða um stjarnvísindi var þegar hann var 16 ára. Þá var honum boðið, sem ungum manni sem hafði áhuga á geimferðum, í Kastljósið með Bjarna Tryggvasyni, vestur-íslenska geimfaranum.

„Ég var náttúrulega mjög stressaður en ég held að ég hafi svo sem komist ágætlega frá því. Síðan vatt þetta upp á sig. Eftir því sem ég skrifaði meira og kom mér í samband við stjarneðlisfræðingana sem hér eru, þá smám saman sannaði ég mig fyrir þeim. Í kringum tvítugt voru þeir farnir að vísa á mann: „Talið bara við hann, hann veit allt um þetta“,“ segir Sævar Helgi.

Ástríða og áhugi er það sem mestu máli skiptir þegar kemur að því að miðla upplýsingum um vísindin og alheiminn og ná til fólks, að mati Sævars Helga.

„Ég held að maður nái til fólks aðallega með því að vera áhugasamur því áhugi er smitandi. Ef maður hittir fólk sem er með smitandi áhuga þá fær maður sjálfkrafa áhuga á því sem það er að segja. Það er auðvitað krefjandi að reyna að einfalda hlutina ef þeir eru flóknir og reyna að passa sig að einfalda ekki um of svo fólki líði ekki eins og það sé álitið vitlaust, því það er það svo sannarlega ekki. Líka að bera virðingu fyrir áheyrandanum og segja í einlægni frá því sem maður er að tala um,“ segir hann.

Sævar Helgi með félaga sínum Sverri Guðmundssyni úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness …
Sævar Helgi með félaga sínum Sverri Guðmundssyni úr Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness árið 2006. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Skrifar nær allt sjálfur og borgar úr eigin vasa

Árið 2004, þegar hann var tvítugur, stofnaði Sævar Helgi Stjörnufræðivefinn ásamt vini sínum Sverri Guðmundssyni. Tilefnið var þverganga reikistjörnunnar Venusar fyrir sólina það ár og hugmyndin að segja fólki frá þessum sjaldgæfa viðburði. Sævar Helgi segir að sér hafi fundist sárlega skort upplýsingar á íslensku um stjarnfræðileg fyrirbæri og hann hafi viljað koma vönduðum upplýsingum á framfæri. Því byrjaði hann að skrifa um sólina og reikistjörnunnar. Síðan þá hefur greinunum á vefnum stórfjölgað og er hann nú besta heimild sem til er á íslensku um stjarnvísindi.

Sævar Helgi hefur sjálfur skrifað stærstan hluta þess efnis sem er á vefnum í frítíma sínum en auk hans hafa fleiri góðir menn lagt hönd á plóginn. Hann hefur einnig sjálfur staðið undir rekstri vefsins úr eigin vasa undanfarin ár. Hann segir það þó allt þess virði og hann ætli að halda því áfram. Ef einhver einn fái áhuga á vísindunum í gegnum vefinn þá sé það þess virði.

Það er enda staðföst trú hans að stjarnvísindin sé best til þess fallin til að vekja áhuga fólks á vísindum almennt. Fyrir utan listaverkin sem sjónaukar skili mönnum af kynngimögnuðum fyrirbærum þá snúist stjarnvísindin svo mikið um stóru spurningarnar sem allir spyrji sig. Hvaðan við komum, hvert við erum að fara, hver verða örlög okkar?

„Ég trúi líka að eftir því sem fleiri eru vísindalega læsir og þenkjandi, því betra verður samfélagið. Ég er alveg sannfærður um að það sem vantar til að draga úr græðgi og svoleiðis sé að hugsa pínulítið stærra og meira um aðra en okkur sjálf, að sýna meiri samkennd. Stjörnufræði hefur alltaf gefið mér sýnina til að hugsa ekki bara um sjálfan mig heldur um jörðina og okkur mannkynið sem eina heild. Ég vildi óska þess að við ynnum betur saman en við nokkurn tímann gerum. Ef það þýðir að ég þarf stundum að draga úr mínum lífsgæðum til að einhver annar sem hefur það verra en ég geti haft það betra þá verður það bara að vera þannig. Ég er alveg tilbúinn að leggja mitt af mörkum þar. Ég hef það ansi gott hvort eð er núna. Til að leysa þessi vandamál sem við stöndum frammi fyrir, eins og loftslagsbreytingum til dæmis, þá er besta leiðin sú að vera vísindalega þenkjandi og finna bestu lausnirnar í sameiningu. Líka að muna það að við erum með jörðina að láni frá börnunum okkar en fengum hana ekki í gjöf frá forfeðrum okkar,“ segir Sævar Helgi.

Myndirnar sem menn hafa tekið með sjónaukum eru oft listaverkum …
Myndirnar sem menn hafa tekið með sjónaukum eru oft listaverkum líkust. Það er meðal annars þess vegna sem Sævar Helgi telur stjarnvísindin hvað best til þess fallin að vekja áhuga barna og fólks vísindum almennt. NASA, ESA og Hubble Heritage Team

Kennsla í stjörnufræði nær þurrkuð út í skólum

Í þessu ljósi hefur Sævar Helgi nokkrar áhyggjur af stöðu náttúrufræðikennslu á Íslandi. Hana megi bæta til muna og það hafi hann meðal annars frá kennurunum sjálfum. Það sem helst slær hann er að hvorki krakkar né fullorðnir, þar á meðal kennarar, séu með grunnatriði eins og ástæður dags og nætur, sólargangsins og árstíða á hreinu.

„Helsta vandamálið núna virðist vera að yfirvöld tala um í einu orði að bæta náttúrufræðikennslu en það gerir það aðallega með því að fækka tímum í náttúrufræði sem virðist ekki vera mikið vit í. Í nýrri námskrá eru stjarnvísindin, sú vísindagrein sem mér og mörgum öðrum, þar með talið fólki á menntavísindasviði, finnst að sé einna mikilvægust til að kveikja áhuga á vísindum, nánast þurrkuð út,“ segir hann.

Því segir Sævar Helgi að Stjörnuskoðunarfélagið og Háskóli Íslands verði að reyna bæta úr með því að hjálpa fólki að öðlast grunnskilning á náttúrunni. Það hefur félagið meðal annars gert með því að bjóða upp á endurmenntunarnámskeið fyrir kennara. Í aðdraganda sólmyrkvans gaf félagið einnig kennslugögn í skóla til að reyna að efla kennsluna.

„Þess vegna fannst mér svo frábært hvernig sólmyrkvaverkefnið tókst. Í heila viku og jafnvel lengur voru krakkarnir að velta fyrir sér sólmyrkva, tunglinu, sólinni og jörðinni að miklu leyti. Þá fengu þau meiri tíma í náttúrufræði í leiðinni,“ segir Sævar Helgi.

Í nógu var að snúast hjá Sævar Helga og félögum …
Í nógu var að snúast hjá Sævar Helga og félögum í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness þegar sólmyrkvi átti sér stað á Íslandi 20. mars. Sjálfur mætti Sævar Helgi ekki í vinnuna í þrjár vikur í aðdraganda myrkvans, svo mikið var að gera í tengslum við hann. KRISTINN INGVARSSON

Gjöfin á sólmyrkvagleraugunum var hugmynd og frumkvæði Stjörnuskoðunarfélagsins. Það er tiltölulega fámennur félagsskapur sem lifir aðeins á félagsgjöldum og á því að halda námskeið. Vegna þess hversu vel það hefur gengið undanfarin ár var sú ákvörðun tekin að nota allt haldbært fé þess í sólmyrkvaverkefnið. Heildarkostnaðurinn nam á endanum um fimm milljónum króna, stór biti fyrir lítið félag. Þrátt fyrir að vel hafi gengið að selja þau gleraugu sem ekki fóru í grunnskólana kom verkefnið út í örlitlum mínus fyrir félagið en Sævar Helgi kippir sér lítið upp við það.

„Þetta hafði mikil áhrif og ég er handviss um að við munum sjá afraksturinn af því á næstu árum í auknum áhuga krakka. Ég vona svo sannarlega að það verði aukning í að krakkar velji sér vísinda- og tæknigreinar. Þetta er líka fólkið sem getur skapað sér sín eigin störf í framtíðinni, fólkið sem hefur þessa þekkingu. Þess vegna tel ég það líka mikilvægt, til að breyta samfélaginu til hins betra,“ segir hann.

Kýs helst jarðbundnari geimmyndir

Áhugi Sævars Helga og ást á alheiminum dylst engum sem við hann ræðir. Honum finnst lítið spennandi í að tala um sjálfan sig en þegar talið berst að stjarnvísindunum kviknar neisti í augunum sem skína af innlifun þegar hann ræðir um þau.

Sævar Helgi er faðir fjögurra ára gamals dreng sem hann segir dásamlegt að eyða tíma með og fylgjast með uppgötva heiminn. Eins og hjá svo mörgum öðrum á hans aldri snýst lífið þessa dagana um að vinna og safna peningum til að geta eignast þak yfir höfuðið. Eftir að slitnaði upp úr sambandinu við barnsmóður hans átti hann engra annarra kosta völ en að flytja aftur í foreldrahús. Hann segir að það gangi hægt að safna en á sama tíma horfir hans kynslóð hjálparlaus á húsnæðisverð sem heldur aðeins áfram að rísa.

Sér til skemmtunar finnst Sævari Helga meðal annars gaman að elda, en þó aðallega borða, góðan mat, ferðast og ganga um íslenska náttúru. „Því fleiri eldfjöll og því grófgerðari sem er hún er því betra í mínum huga,“ segir hann.

Helsta leið hans til að slappa af er hins vegar kvikmyndir og þættir. Hann segist eiga sér þrjár uppáhaldsgeimmyndir. Það kemur kannski einhverjum á óvart en Stjörnustríð og Star Trek eru ekki þar á meðal. „Ég vil færri stríð og meiri frið við að kanna alheiminn, hvað getur verið skemmtilegra? Þá þurfum við engin stríð,“ segir hann.

Þær myndir sem hann kann að meta eiga sér það helst sameiginlegt að hafa sterkari stoðir í raunverulegum vísindum en slíkar ævintýramyndir. 

„Apollo 13 því ég er gjörsamlega heillaður af Apollo-verkefninu og ég gerði meðal annars útvarpsþætti um það. Mér finnst hún frábær. Svo finnst mér „Contact“, mynd sem er gerð eftir bók Carls Sagan, alveg frábær því hún er mjög raunsönn mynd af því sem myndi gerast ef við myndum nú heyra skilaboð frá geimverum. Svo dýrka ég „Interstellar“. Mér finnst hún algert æði. Ég get alveg hugsað mér að horfa á hana aftur og aftur. Það er bara þessi hugmynd sem mér finnst rosalega heillandi ef maður fer nálægt þungu þyngdarsviði að tíminn líður hægar, allar þessar pælingar sem tengjast ferðalagi á miklum hraða,“ segir hann.

Sævar Helgi hefur verð með stjörnur í augunum frá því …
Sævar Helgi hefur verð með stjörnur í augunum frá því að hann var ungur að árum. Babak Tafreshi/National Geographic

Sannfærður um tilvist lífs utan jarðarinnar

Spurður að því hvað spurningar brenna helst á honum um alheiminn, eðli hans og upphaf, segist Sævar Helgi erfitt með að gera upp við sig hvað hann telji mest heillandi. Hann nefnir hulduefni og orku sem talin eru nema 96% alheiminum en enginn hefur náð að greina með beinum hætti og fjarstæðukenndar staðreyndir svarthola, einhverra dularfyllstu fyrirbæra alheimsins.

Að lokum staldrar hann hins vegar við uppruna alheimsins og hvort að líf sé að finna utan jarðarinnar.

„Ef ég ætti að fá svör við einhverjum spurningum væri það sú spurning hvort að það sé líf einhvers staðar annars staðar. Þá myndi ég vilja fá meira en já og fá að vita hvernig líf er það, hvernig þróaðist það og svo framvegis,“ segir hann.

Sjálfur er hann alveg sannfærður um tilvist lífs annars staðar í alheiminum. Það sé hins vegar önnur spurning hversu langt það sé í burtu, hversu ólíkt það sé okkur, í kringum hvers konar stjörnur það þróaðist, hversu gamalt það er og hvort því hafi tekist að lifa af tækniframfarir eins og uppfinning kjarnorkunnar.

„Alheimurinn er svo ofboðslega stór. Það eru 100 milljarðar vetrarbrauta í alheiminum. Ef það er bara ein pláneta í hverri vetrarbraut sem er með líf eru að minnsta kosti 100 milljarðar mismunandi lífsforma í alheiminum. Það er ansi mikið. Það hlýtur að vera eitthvað þarna úti. Í hverri vetrarbraut eru 100-400 milljarðar stjarna að meðaltali. 100 milljarðar sinnum 100 milljarðar er tala sem bara bankamenn skilja eins og staðan er í dag!“ segir hann.

Óþarfi að skreyta alheiminn með sögum trúarbragðanna

Í stjarnvísindunum velta menn meðal annars fyrir sér uppruna alheimsins sjálfs og hvernig allt það sem við sjáum í honum í dag varð til og þróaðist. Þær vangaveltur voru áður fyrr aðeins á forræði trúarbragðanna sem töldu sig hafa öll svörin um það á reiðum höndum í fornum ritum. Sævar Helgi hefur hins vegar litla trú á því yfirnáttúrulega.

„Ég er ekki trúaður og hef enga þörf fyrir trú. Mér finnst skýringarnar sem við höfum fundið út með tíð og tíma miklu tignarlegri en þessar skýringar um sköpun og svo framvegis. Mér finnst alger óþarfi að skreyta alheiminn með einhverjum slíkum sögum. Hann er stórkostlegur eins og hann er. Til dæmis finnst mér þróunarkenningin ein flottasta skýringin á tilurð og fjölbreytileika lífs hér á jörðinni. Þegar ég uppgötvaði þróunarkenninguna í fyrsta skipti fór ég allt í einu að bera miklu meiri virðingu fyrir lífinu. Við erum öll af sama meiðinum og við deilum þessari jörð. Þessi hugmynd um að við séum eitthvað hærra sett en aðrar dýrategundir finnst mér fáránleg,“ segir hann.

Sævar Helgi Bragason tók við verðlaunum sem „framúrskarandi ungur Íslendingur“ …
Sævar Helgi Bragason tók við verðlaunum sem „framúrskarandi ungur Íslendingur“ sem JCI á Íslandi veitti í fyrra.

Óvissan það sem gerir vísindin skemmtileg

Í anda vísindalegrar hugsunar segist Sævar Helgi að sjálfsögðu ekki geta útilokað að einhver hafi skapað heiminn en miðað við það sem menn viti um hann hafi hann ekki trú á því. Sýni einhver honum sönnunargögn fyrir því þá muni hann hins vegar trúa því með glöðu geði. Hann segist þó myndu verða fyrir vonbrigðum ef heimurinn reyndist hafa verið skapaður af yfirnáttúrulegri veru.

„Mér finnst þessi hugmynd um að alheimurinn geti orðið til úr engu, hann lúti náttúrulögmálum og að þetta sé eðlileg þróun ótrúlega heillandi. Að við séum hérna að einhverju leyti fyrir slysni, að við séum hér í alvörunni að velta þessu öllu fyrir okkur, við sem erum bara leifar sprengistjarna að velta okkar eigin uppruna og örlögum fyrir sér. Mér finnst það ekki gera lítið úr okkur, þvert á móti. Það að við séum tengd alheiminum svona djúpum böndum er fallegasta staðreynd sem ég veit um,“ segir hann.

Hugmyndin um að menn muni líklega aldrei öðlast neins konar allsherjarskilning á alheiminum truflar Sævar Helga heldur ekki. Þvert á móti vonast hann til þess að svo verði aldrei.

„Óvissan er það sem gerir vísindin skemmtileg, að leita eftir því að skilja alheiminn. Maður veit náttúrulega ekki hvernig heimurinn væri þar sem allir vissu allt. Það er kannski líka það sem truflar mig svolítið við trúarbrögðin. Því að þau hafa „útskýringar“ á því sem við höfum ekki útskýringar á en þessar útskýringar eru ekki fullnægjandi í mínum huga, alls ekki. Við komumst örugglega aldrei að öllu. Ætli okkur sé ekki að eilífu útilokað að þekkja allt. Það er bara ágætt, þá er einhver tilgangur með þessu öllu saman,“ segir hann.

Krakkarnir láti sig dreyma stóra drauma

Betra samfélag manna á jörðinni er Sævari Helga hugleikið en hann sér könnum alheimsins og þekkingu á vísindunum tæki til þess. Þannig telur hann tunglferðirnar það merkilegasta sem mannkynið hefur nokkru sinni gert. Með þeim hafi menn loks í fyrsta skipti séð jörðina fyrir það sem hún er, reikistjörnu í nær óendanlega stórum alheimi.

„Í 4.600 milljón ára sögu jarðarinnar og ríflega 3.000 milljón ár sögu lífs á jörðinni erum við fyrsta dýrategundin sem tókst að yfirgefa móður jörð, ferðast til annars hnattar og komast aftur heim heil á húfi. Fyrsta dýrategundin sem sér jörðina eins og hún er. Ég vona svo sannarlega að við höldum áfram að fara út í geiminn og kanna hlutina í kringum okkar, halda landafundum áfram. Á friðsaman hátt það er að segja, ekki eins og Kólumbus og þeir kappar á sínum tíma. Kannski blundar það bara í okkur að leggja undir okkur allt og eyðileggja það en ég ætla að vera það barnalegur að halda að við getum gert það á friðsaman hátt og með forvitnina að leiðarljósi,“ segir hann.

Þegar menn yfirgáfu jörðina til að fara til tunglsins uppgötvuðu …
Þegar menn yfirgáfu jörðina til að fara til tunglsins uppgötvuðu þeir jörðina sem reikistjörnu í víðáttumiklum alheimi. NASA

Mannkynið virðist hafa tapað að miklu leyti þeirri ævintýraþrá og ástríðu fyrir könnun geimsins sem einkenndi tíma tunglferðanna en Sævar Helgi segist ekki hafa neinar haldbærar skýringar á því hvers vegna það hefur gerst.

„Okkur er bara hætt dreyma stóra drauma og ég veit ekki af hverju. Það er eitt af því sem maður vill breyta hérna. Það er að krakkarnir sem eru að alast upp núna láti sig dreyma stóra drauma og láti þá verða að veruleika, ýta okkur áfram og gera lífið á jörðinni betra í leiðinni. Það er kannski það sem drífur mann áfram. draumurinn um betra samfélag í framtíðinni þar sem allir eiga meiri möguleika og við getum búið í sátt og samlyndi á þessari fallegu plánetu og haldið áfram að kanna heiminn í kringum okkur,“ segir hann.

Sjálfan dreymir Sævar Helga um dreymir um að skrifa bækur og búa til sjónvarpsþætti um vísindin. Það sé ótrúlega gefandi að fræða fólk um alheiminn.

„Það er ótrúlega skemmtileg tilfinning að sjá huga fólks stækka þegar það lærir eitthvað nýtt og magnað um alheiminn. Skemmtilegast af öllu er að kenna áhugasömum krökkum. Það er ótrúlega gefandi að fá að vera í því hlutverki að efla áhugann, hvort sem það eru krakkar eða fullorðið fólk.  Ég held að áhugi á náttúrunni og hvernig við urðum til blundi í öllum, það þarf bara að kynda undir hann eins og allt annað. Ég vil reyna að hafa einhver áhrif og láta gott af mér leiða. Ef það tekst held ég að ég geti dáið sáttur,“ segir Sævar Helgi sem hefur líklega þegar unnið sér inn fyrir því að vera nefndur Carl Sagan Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert