Blindbylur framundir morgun

Sumarið tekur misvel á móti landanum.
Sumarið tekur misvel á móti landanum. mbl.is/Ómar

Áfram verður skafrenningur og éljagangur á Vestfjörðum og vestantil á Norðurlandi, og ofanhríðin eykst eftir því sem austar dregur. Austanlands hvessir enn frekar í kvöld og spáð er 20-25 m/s á Austfjörðum. Blindbylur þar til allt til morguns. Suðaustanlands er reiknað með hviðum 35-45 m/s, og sandfoki einkum austan Hafnar. Á Skeiðarársandi og Mýrdalssandi má gera ráð fyrir sandfoki sem heldur ágerist til morguns.

Færð og aðstæður

Vegir eru greiðfærir að heita má um allt sunnanvert landið.

Á Vesturlandi er snjóþekja og skafrenningu á Bröttubrekku og Fróðárheiði en hálka og skafrenningur á Holtavörðuheiði. Hálka og éljagangur er á Svínadal.

Á Vestfjörðum er hálka og snjóþekja. Snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum. Ófært er í Árneshrepp sem og á Klettshálsi og Steingrímsfjarðarheiði.

Það er hálka og snjóþekja og sumstaðar skafrenningur og éljagangur á Norðurlandi, einkum þegar komið er austur fyrir Skagafjörð. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Hólasandi.

Á Austurlandi er hálka eða snjóþekja og skafrenningur á flestum leiðum og sumstaðar stórhríð. Lokað er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum sem og á Fjarðarheiði og ófært og óveður á Vatnsskarði eystra.
Öxi og Breiðdalsheiði eru ófærar. Mikið hvassviðri er í Hamarsfirði og sandfok á Suðausturlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert